132. löggjafarþing — 37. fundur,  7. des. 2005.

Raunfærnimat.

214. mál
[16:09]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Rétt aðeins í upphafi vil ég koma því á framfæri að þeir 119 af 20 þúsund nemendum, sem sóttu um vist í framhaldsskólunum og fengu inni, voru ekki endilega eingöngu eldri nemar heldur nemar sem komust ekki inn á t.d. listfræðibrautir. Það eru bara venjulegar hagkvæmar forsendur fyrir því að þeir komast ekki inn. Framhaldsskólarnir eins og þeir eru í dag eru öllum opnir, ekki nema tæknilegir örðugleikar hafi leitt til þess að einstaklingar hafi ekki komist inn á þá braut sem þeir sérstaklega sóttust eftir.

Til mín hefur verið beint nokkrum spurningum um raunfærnimat og fyrsta spurningin er:

„Hvað líður mati á óformlegu námi og starfsreynslu og gerð kerfis til að meta raunfærni sem unnið er að á vegum ráðuneytisins?“

Mat á óformlegu námi og starfsreynslu eða því sem nefnt er raunfærni einu nafni er mikilvægur þáttur í að hækka menntunarstig þjóða. Raunfærnimat er einkum mikilvægt fyrir þá einstaklinga sem stysta skólagöngu hafa að baki og vilja auka menntun sína og styrkja stöðu á vinnumarkaðnum. Menntamálaráðuneytið gerði þjónustusamning við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins árið 2003 um að þróa aðferðir um mat á óformlegu námi og starfsreynslu. Starfshópur skipaður tveimur fulltrúum ráðuneytisins og einum skólameistara hefur unnið að málinu undir verkstjórn sérfræðings frá fræðslumiðstöðinni. Afraksturinn er þegar kominn í ljós því búið er að meta námskrár átta námsbrauta sem starfræktar eru utan hins formlega skólakerfis fyrir ófaglærða einstaklinga eða þá sem skortir menntun í undirstöðugreinum. Allar hafa þessar átta brautir það að markmiði að auðvelda ófaglærðum að stunda nám í framhaldsskólum eða að nýta þekkingu og reynslu sína úr fyrri störfum til að afla sér starfsmenntunar og starfsréttinda.

Starfshópurinn hefur gert tillögu til ráðuneytisins hvernig meta megi þessa námskrá til hagsbóta fyrir þá sem ljúka námi samkvæmt þeim. Tillögur hópsins hafa tekið mið af því að meta megi inntak óformlegs náms annars vegar og þá starfsreynslu sem hver einstaklingur býr yfir hins vegar. Þegar ráðuneytið hefur afgreitt tillögurnar eru framhaldsskólunum sendar leiðbeinandi reglur um hvernig þeir geta metið óformlegt nám þeirra sem þangað leita til frekari menntunar. Matið tengir þannig saman óformlegt nám, starfsreynslu og nám sem í boði er í framhaldsskólum landsins.

Síðan er spurt:

„Taka fulltrúar framhaldsskólanna þátt í þessari vinnu?“

Skólameistari á sæti í þeim starfshóp sem nefndur var áðan. Hópurinn leggur áherslu á að koma upplýsingum um raunfærnimatið til framhaldsskólanna þar sem þeir eru lykilaðilar í því að raunfærnimatið nýtist. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins ætlar að heimsækja alla framhaldsskóla landsins og koma þekkingu á raunfærnimatinu þar á framfæri. Búið er nú þegar að heimsækja fimm skóla þegar þessi orð eru töluð og lokið verður við að heimsækja þá alla í vetur.

Þá er spurt:

„Hvernig er fyrirhugað að nýta eða samþætta kerfið íslensku skólakerfi?“

Sú vinna sem nú er í gangi við að móta aðferðafræði og kerfi til raunfærnimats hefur að leiðarljósi að það verði hluti, og þetta skiptir miklu máli, af íslenska menntakerfinu. Afraksturinn af matinu á að vera grunnur að frekara námi innan skólakerfisins til hagsbóta fyrir þá einstaklinga sem nýta sér raunfærnimatið.

Að lokum er spurt:

„Hvenær er reiknað með að afrakstur vinnunnar geti nýst?“

Eins og að framan greinir er vinnan þegar farin að nýtast einstaklingum sem lokið hafa óformlegu námi, en það er einn þáttur raunfærnifmatsins. Hér er hins vegar um mjög stórt og margþætt viðfangsefni að ræða. Fyrsta kastið beinist vinnan að því að þróa aðferðir og tæki til raunfærnimats, leita upplýsinga og kynna hugmyndafræðina að baki raunfærnimatinu fyrir fræðslustofnunum, samtökum og einstaklingum. Raunfærnimat sniðið að þörfum ófaglærðra hefur verið sett í forgang og er reiknað með í áætlunum Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins að á árinu 2006 verði búið að móta stefnuna og þróa aðferðir og tæki á því sviði. Í framhaldi af því þarf að þjálfa matsaðila og koma virku ferli raunfærnimats um allt land. Reikna má með að það taki a.m.k. tvö ár til viðbótar. Jafnframt þarf að huga að raunfærnimati sem nýtist faglærðum og er stefnt að því að hefja þróun þess á árinu 2006 með tilraunaverkefnum og samstarfi við fagaðila. Gangi þessar áætlanir Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins eftir ætti skilvirkt kerfi raunfærnimats að geta komið á hér á landi eftir 3–5 ár að því gefnu að unnt verði að tryggja fjármagn til þeirrar starfsemi sem raunfærnimatið mun óhjákvæmilega kalla á.

Þá er rétt að geta þess að vinna við kortlagningu á raunfærnimati starfa í matvælaframleiðslu er að hefjast í samstarfi starfsgreinaráðs hótel- og matvælagreina og Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins. Þá er einnig áhugavert að fræðslumiðstöðin leiðir nú stórt evrópskt verkefni um raunfærnimat í samstarfi við aðila frá fimm öðrum Evrópulöndum en verkefnið er styrkt af Leonardo da Vinci-starfsmenntaáætluninni. Vinna við raunfærnimat á Íslandi er eins og að ofan greinir komin nokkuð áleiðis en stór verkefni eru vissulega fram undan. Markviss áætlun um uppbyggingu öflugs raunfærnimats hér á landi liggur fyrir og tel ég afar brýnt og mikilvægt að hún fái framgang.