132. löggjafarþing — 37. fundur,  7. des. 2005.

Raunfærnimat.

214. mál
[16:16]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er um mikilvægt mál að ræða. Það hefur komið fram að háskólarnir eru hættir að nota undanþáguheimildir sínar til að raunfærnimeta fólk, sem er ekki með formleg stúdentspróf, inn í skólana. Það er dapurleg þróun af því að það er gott að skólarnir beiti þeim undanþáguheimildum sem allra mest og best. En samkvæmt svari hæstv. forsætisráðherra við fyrirspurn hv. þm. Önnu Kristínar Gunnarsdóttur á dögunum um menntun eftir búsetu kemur fram að af þeim sem eru á vinnumarkaði eru alls tæp 41% með grunnmenntun, þ.e. grunnskóla eða styttri formlega skólagöngu, 40% með starfs- og framhaldsskólamenntun en einungis tæp 19% með háskólamenntun. Þetta er ekki að breytast. Þeim fjölgar ekki að neinu marki sem hafa lengri formlega skólagöngu að baki en grunnskólagöngu. Við því þarf að bregðast og þar er vinnan við raunfærnimat mjög mikilvæg. Því er sú umræða sem á sér stað núna fagnaðarefni.