132. löggjafarþing — 37. fundur,  7. des. 2005.

Raunfærnimat.

214. mál
[16:21]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Önnu Kristínu Gunnarsdóttur fyrir þessa fyrirspurn og að draga fram mikilvægi raunfærnimatsins og þá miklu þýðingu sem það hefur og mun hafa fyrir íslenskt menntakerfi. En það er líka rétt að taka það fram til upplýsingar, m.a. af því að menn drógu fram fyrri umræður, að um 10% þeirra sem teknir eru inn í Háskólann á Akureyri eru ekki með stúdentspróf þannig að kerfið tekur tillit til fólks með fjölbreyttan bakgrunn. (Gripið fram í.) Síðan er líka hárrétt að það skiptir miklu máli að fá fleiri með grunnskólamenntun inn í menntakerfið aftur. Við erum með fjölbreytt námsframboð. Það vita ekki allir að við erum með 87 starfs- og verkmenntabrautir þegar grunnskóla lýkur sem blasa við sem tækifæri fyrir ungt fólk en það nýtir sér ekki þau tækifæri. Og þá segi ég enn aftur það sem ég hef margoft sagt í þessum ræðustól að við þurfum á ákveðinni viðhorfsbreytingu að halda gagnvart starfs- og verkmenntun í landinu.

Ég vil einnig upplýsa það, frú forseti, að í ljósi mikilvægis símenntunar og fullorðinsfræðslu, sem er reyndar með töluvert öðrum hætti hér en gengur og gerist á Norðurlöndunum — við erum að taka fullorðinsfræðsluna og símenntunina mikið inn í framhaldsskólakerfið, það er ekki svo alls staðar annars staðar á Norðurlöndum — þá vil ég upplýsa að ég hef stofnað sérstaka deild innan ráðuneytisins sem sérstaklega kemur til með að fjalla um símenntun og fullorðinsfræðslu og það er að sjálfsögðu til þess að undirstrika mikilvægi þessa flokks innan menntakerfisins.