132. löggjafarþing — 37. fundur,  7. des. 2005.

Fræðsla í Kennaraháskóla Íslands um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum.

215. mál
[16:32]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir svörin og þeim þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni. Ég held að við séum öll sammála hvað þennan málaflokk varðar, þ.e. kynferðislegt ofbeldi gegn börnum, að fræðslan er lykilatriði og ekki síst fagstétta. Þá á ég við þær stéttir sem starfa bæði innan menntakerfisins og heilbrigðiskerfisins.

Eins og kom fram í máli mínu geri ég mér alveg grein fyrir að ábyrgð námskrár er hjá viðkomandi deildarráði eða deild hjá Kennaraháskólanum, en ég tel hins vegar að það skipti miklu máli ef hæstv. ráðherra menntamála segir á þingi að hún muni beita sér fyrir breytingu eða aukinni áherslu á þessa fræðslu í námskrá.

Það er auðvitað mjög ánægjulegt að heyra að Kennaraháskólinn hafi verið að bregðast við gagnvart umræðu undanfarinna vikna eins og hæstv. ráðherra gat um og ánægjulegt að ýmislegt er að gerast varðandi þennan hluta innan skólans. Kennaranemendur hafa einmitt sjálfir bent á að þeir vilji meiri kennslu um þessi málefni í skyldunámi sínu. Ég tel þó að gera þurfi jafnvel enn betur og mér heyrist hæstv. ráðherra vera sammála mér í því þegar hún segir að styrkja þurfi þessa fræðslu.

Einnig er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur, við þurfum með einhverjum hætti að geta liðsinnt þeim kennurum sem eru nú þegar úti á akrinum eða í skólunum og fengu ekki viðhlítandi fræðslu. Þetta eru einstaklingar sem hafa hugsanlega lent í vandræðum að þekkja einkenni kynferðisofbeldis gegn börnum og það er mikilvægt að þetta fólk hafi aðgang að einhvers konar fræðslu. Ég er ekki að tala um dýr endurmenntunarnámskeið í Endurmenntun Háskóla Íslands heldur að bregðast við á annan hátt. Það væri mjög fróðlegt að heyra ef hæstv. menntamálaráðherra væri tilbúin að beita sér fyrir einhvers konar endurmenntunarmöguleikum eða símenntunarmöguleikum gagnvart þeim kennurum sem nú þegar eru farnir að kenna og fengu jafnvel enga fræðslu um kynferðisofbeldi gegn börnum.