132. löggjafarþing — 37. fundur,  7. des. 2005.

Réttur nemenda í framhalds- og háskólanámi til húsaleigubóta.

118. mál
[16:44]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég vonast til að hæstv. ráðherra hrindi þessum tillögum í framkvæmd sem fyrst. Hér er ekki einungis um réttlætismál að ræða heldur er þetta eitt af þeim atriðum sem hefur vafist fyrir fólki hvers vegna það ætti að vera að samþykkja sameiningu sveitarfélaga.

Hv. fyrirspyrjandi talaði um hvernig hlutirnir gengju fyrir sig í Skagafirðinum. Þeir sem væru í Fljótum ættu ekki rétt á húsaleigubótum ef þeir sæktu nám í Fjölbrautaskólanum á Sauðárkróki en hins vegar eiga þeir sem búa í Akrahreppi rétt á húsaleigubótum. Ég spyr því: Hvers vegna eiga þá íbúar Akrahrepps í ósköpunum að vera að samþykkja sameiningu? Ef þeir gerðu það væru þeir um leið að samþykkja að svipta börnin sín eða unglingana réttinn til húsaleigubóta. Það eru svona atriði sem hæstv. ráðherra ætti að líta til og kippa í liðinn áður en hann fer í næstu sameiningarhrinu.