132. löggjafarþing — 37. fundur,  7. des. 2005.

Réttur nemenda í framhalds- og háskólanámi til húsaleigubóta.

118. mál
[16:48]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu. Við erum sammála um að hér er um réttlætismál að ræða. Við getum hins vegar ekki, hv. þm. Jón Bjarnason, varpað fyrir róða lögum og reglum í þessu máli frekar en öðrum. Samráðsnefnd um húsaleigubætur á samkvæmt lögum að fylgjast með framkvæmd laganna. Þar var málið til umfjöllunar þegar við hv. þingmaður áttum síðast orðastað um þetta í eðlilegum farvegi. Nú hefur nefndin skilað af sér tillögum sínum fyrir fáeinum vikum. Ég rakti það áðan, hæstv. forseti, og nefndin leggur til breytingar, nákvæmlega í þá átt sem við höfum hér rætt. Eins og ég lýsti áðan mun ég beita mér fyrir því að við getum gengið til breytinga í þá átt sem hér varðar. Ég tek algjörlega undir það að hér er um réttlætismál að ræða og eins og hv. þm. Sigurjón Þórðarson m.a. rakti með því að taka dæmi úr Skagafirði, af Fljótamönnum annars vegar og fólki úr Akrahreppi hins vegar. Það dæmi undirstrikar að hér er um réttlætismál að ræða sem ég vona að okkur takist að koma til lands á næstu vikum.