132. löggjafarþing — 37. fundur,  7. des. 2005.

Réttarstaða sjómanna.

282. mál
[16:50]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég vil beina eftirfarandi spurningu til hæstv. félagsmálaráðherra. Spurningin er mjög mikilvæg og varðar réttarstöðu sjómanna: Hefur ráðherra kannað réttarstöðu sjómanna á smábátum sem eru án kjarasamninga?

Í umræðunni hefur ekki farið mjög hátt að þeir eru án allra kjarasamninga hvað varðar launakjör, veikindarétt og svo má lengi telja. Samningsleysi sjómanna hefur ekki fengið mikla umfjöllun undanfarið en fyrir fimm árum var talsvert fjallað um það í Morgunblaðinu. Þar sagði þá að kjarasamningar væru í burðarliðnum. Sú fæðing hefur gengið mjög örðuglega, hríðir hafa staðið yfir í fimm ár. Ég er á því að hæstv. félagsmálaráðherra eigi að bregða sér í gervi fæðingarlæknis og reyna að koma þessu barni í heiminn vegna þess að hér er um mjög mikilvægt mál að ræða.

Mikið hefur verið fjallað um þau brot sem framin hafa verið á erlendum verkamönnum hvað varðar starfsmannaleigur og við erum að vinna bót á því, m.a. með nýju frumvarpi. Einnig var rætt hér um réttleysi blaðburðarbarna og mér skilst að a.m.k. sum fyrirtæki hafi tekið sig verulega á hvað það varðar. Ég er á því að það sé löngu orðið tímabært að taka á þessu máli.

Menn hafa einnig velt vöngum yfir því að erfiðlega gangi að manna fiskiskipaflotann. Ég er á því að hér sé eina skýringuna að finna, mennirnir hafa einfaldlega engan kjarasamning. Yfirleitt ganga samskiptin ágætlega á milli útgerðarmanna þessara smábáta og sjómanna en það er ekki einhlítt. Við í Frjálslynda flokknum höfum fengið neyðarkall frá sjómönnum á Skagaströnd. Þeir sögðu farir sínar ekki sléttar í viðskiptum við mjög ósanngjarnan útgerðarmann, að þeirra sögn, sem braut á þeim, hafði af þeim laun og rak þá fyrirvaralaust ef þeir reyndu að krefjast réttar síns.

Víða má sjá mikinn vilja meðal útgerðarmanna til að taka á þessu máli, bæði skín það stundum í gegn í viðtölum við formann Landssambands íslenskra smábátaeigenda og nýlega samþykkti Smábátafélagið Elding á Ísafirði að fara í samninga við sjómenn. Hér er um mjög brýnt mál að ræða sem hefur ekki farið mjög hátt en full þörf er á að ræða. Þetta mál varðar mjög marga, nokkur hundruð manns, og þetta kvótakerfi sem þeir vinna í hefur leitt til þess að sumir þeirra hafa lent í því að vera jafnvel neyddir til að taka þátt í leigu aflaheimilda. Það er orðið nauðsynlegt að setja ramma utan um þessa starfsemi.

Það verður fróðlegt að fá að heyra svör hæstv. ráðherra hvað þetta varðar.