132. löggjafarþing — 37. fundur,  7. des. 2005.

Réttarstaða sjómanna.

282. mál
[16:53]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Sigurjón Þórðarson hefur beint til mín fyrirspurn um það hvort félagsmálaráðherra hafi kannað réttarstöðu sjómanna á smábátum sem eru án kjarasamninga. Út af fyrir sig gæti ég svarað þessu með líkum hætti og einn fyrrverandi hæstv. ráðherra gerði hér í þingsalnum einhvern tíma, svaraði spurningunni einfaldlega með því að segja nei. Ég ætla þó ekki að gera það. Hins vegar er svarið: Nei, engin könnun hefur farið fram á vegum félagsmálaráðuneytisins á réttarstöðu sjómanna á smábátum. Ég vil bæta eftirfarandi við það einfalda svar: Nokkur áhöld eru um hvort það er í verkahring félagsmálaráðherra að svara fyrirspurn sem snertir réttarstöðu sjómanna. Í áranna rás hefur sú venja skapast að samtök útgerðarmanna og sjómanna hafa kosið að eiga orðastað við sjávarútvegsráðherra þegar þau á annað borð hafa viljað ræða hagsmuna- og réttindamál sín við stjórnvöld. Aðbúnaður og öryggi um borð í skipum heyrir til verksviðs samgönguráðherra.

Það er jafnljóst að það er löng og viðtekin venja hér á landi að samtök aðila vinnumarkaðarins semji um kaup og kjör launafólks sem og önnur vinnuskilyrði í frjálsum samningaviðræðum. Oftar en ekki hefur það komið fram hjá samtökum atvinnurekenda og launafólks að þau afþakka afskipti stjórnvalda og löggjafarvalds og vilja skipa málum sín í milli með kjarasamningum sem gerðir eru á milli jafnsettra samningsaðila í frjálsum viðræðum. Þar af leiðandi hafa stjórnvöld fylgt þeirri stefnu að gefa hagsmunasamtökum á vinnumarkaði mikið svigrúm til að semja sín í milli um réttindi og skyldur atvinnurekenda og launamanna án opinberra afskipta.

Þess eru þó dæmi að samtök aðila vinnumarkaðarins og stjórnvöld hafi komið sér saman um að vissum lágmarksréttindum sé betur fyrir komið í lögum en að öðru leyti séu samningar um nánari útfærslu og betri réttindi í höndum samningsaðila atvinnurekenda og launafólks. Þessir aðilar hafa meðal annars komið sér saman um ákveðnar samskiptareglur við gerð frjálsra kjarasamninga, sem finna má í lögum, en þar er gert ráð fyrir að samningsaðilarnir geti notið atbeina ríkissáttasemjara til þeirra starfa. Lög um ríkissáttasemjara falla vissulega undir málefnasvið félagsmálaráðuneytis, enda þótt því sé ekki ætlað þar sérstakt hlutverk.

Þetta kerfi byggist auðvitað á því að allir aðilar gangist við skyldu og ábyrgð sem fyrst og fremst felst í því að ræða við gagnaðilann og gera samning þar sem aðilar setja niður á blað hvernig skipa eigi réttindum, skyldum, kaupi og kjörum. Við þessu hafa aðilar gengist og ég trúi því að það séu einmitt þær samskiptareglur sem eru grunnurinn að þeirri uppbyggingu og velferð sem ríkir hér á Íslandi enda hefur víðtæk sátt ríkt um þær í samfélagi okkar.

Hæstv. forseti. Líkt og forverar mínir í starfi hef ég lagt áherslu á að eiga gott og náið samráð við helstu samtök atvinnurekenda og launafólks um breytingar á gildandi lögum og reglugerðum sem og aðra þá þætti er varða vinnumarkaðinn. Ég hef ekki í krafti embættis míns vald til að skylda einstaka aðila á vinnumarkaði til gerða á kjarasamningum og er því þeirrar skoðunar að þetta málefni eigi betur heima á öðrum stað en hér í þingsalnum þótt það sé sjálfsagt að taka það hér til umræðu. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessu máli hér. Ég vil líka nota tækifærið sem hér gefst til að hvetja þá aðila sem hér eiga hlut að máli til að vinna að gerð kjarasamninga sem ætlað er að ná til þeirrar starfsstéttar sem þingmaðurinn vísar til hér í fyrirspurn sinni. Vinnumarkaðskerfi okkar byggist á gerð slíkra samninga og því kerfi viljum við viðhalda. Ég ítreka það, hæstv. forseti, að ég hvet þá aðila sem hér eiga í hlut eindregið til að koma sér saman um slíkan samning.