132. löggjafarþing — 37. fundur,  7. des. 2005.

Hvalnes- og Þvottárskriður.

228. mál
[17:10]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Reynsla okkar í vegamálum á mörgum undanförnum missirum hlýtur náttúrlega að mæla með því að við skoðum kosti þess að grafa jarðgöng alls staðar þar sem því verður við komið. Við sjáum hvað jarðgöng geta sparað okkur miklar fjárhæðir. Allir hljóta að vera orðnir mjög þreyttir á að henda hundruðum milljóna ár eftir ár í vonlausa vegi eins og við sjáum á veginum til Bolungarvíkur og á þeim vegi sem ráðherra nefndi áðan að hálfur milljarður a.m.k. færi í að endurbæta þann veg en hins vegar kostar ekki nema tæpa 4 milljarða að gera þessi göng. Sennilega er það þannig að eftir því sem tíminn líður verður gangakosturinn enn þá áhugaverðari því mér sýnist á þeim kostnaðartölum sem liggja fyrir eftir þær framkvæmdir í jarðgangagerð sem farið hefur verið í á undanförnum árum hér á landi að tíminn vinni mjög með þessu, þ.e. gerð jarðganga verður sífellt ódýrari eftir því sem þekking okkar verður betri á því hvernig staðið skuli að slíkri mannvirkjagerð.