132. löggjafarþing — 38. fundur,  7. des. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[17:27]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Hv. fyrri ræðumaður, formaður iðnaðarnefndar, hefur lýst þessu frumvarpi sem gríðarlegu framfaraspori í atvinnumálefnum Íslendinga. Fyrir fram er ekkert við því að segja. Hann hefur líka lýst því hvað það sé jákvætt að ráðherra getur nú gefið vilyrði um nýtingarleyfi um leið og hún úthlutar rannsóknarleyfum vegna vatnsaflsvirkjana. Ræðumaðurinn er mjög viss í sinni sök og þess vegna er rétt að spyrja hann: Eftir hvaða reglum er þá farið við þessa vilyrðisgjöf? Hvaða reglur eru það? Ræður bara geðþótti ráðherrans eða er farið eftir einhverju regluverki við að gefa þessi leyfi, reglugerðum eða vinnureglum í iðnaðarráðuneytinu sem mér er ekki kunnugt um en hv. formanni iðnaðarnefndar hlýtur að vera?