132. löggjafarþing — 38. fundur,  7. des. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[17:28]
Hlusta

Frsm. meiri hluta iðnn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Framfaraspor kallaði hv. þingmaður frumvarpið sem hér liggur fyrir Alþingi og það er mitt mat að hér sé um mjög mikið framfaraspor að ræða. Við hv. þingmaður eigum það sameiginlegt að vera fulltrúar flokka sem vilja skynsamlega nýtingu á náttúrauðlindum þjóðarinnar. Það er mjög mikilvægt að farið sé í rannsóknir á þessum náttúruauðlindum okkar. Ég tók það skýrt fram áðan, hæstv. forseti, að nýtingarleyfi þarf að fara í gegnum mat á umhverfisáhrifum. Það eru alveg skýr skil þar á milli þannig að ef slík framkvæmd fullnægir ekki þeim skilyrðum þá er málið að sjálfsögðu í uppnámi og umhverfið nýtur vafans.

Hæstv. forseti. Staðið hefur verið faglega að úthlutunum rannsóknarleyfa m.a. hvað varðar jarðhita og ég hef ekki orðið var við að það hafi valdið miklum deilum í samfélaginu og ég á von á að fulltrúar ráðuneytisins og aðrir aðilar muni standa faglega að þessu.