132. löggjafarþing — 38. fundur,  7. des. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[17:31]
Hlusta

Frsm. meiri hluta iðnn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við skulum gæta stillingar í málflutningi, hv. þm. Mörður Árnason. Það er náttúrlega ljóst að Orkustofnun mun fara yfir rannsóknaráætlunina. Með gildistöku þessara laga hleypum við umhverfisráðuneytinu og undirstofnunum þess að rannsóknaráætlunum áður en þær verða samþykktar. Embættismenn hljóta að fara yfir þetta með hlutlausum hætti og meta þær áætlanir sem fyrir liggja. Ég ætla ekki sem hv. þingmaður á Alþingi að fara að meta hvaða rannsóknaráætlanir eru betri eða verri en aðrar. Þar koma margir þættir til. Þetta er flókið mál eins og kom fram í nefndarstarfinu og ég sem þingmaður ætla ekki að fara að gerast dómari í þeim efnum.