132. löggjafarþing — 38. fundur,  7. des. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[17:33]
Hlusta

Frsm. meiri hluta iðnn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við fórum yfir málið á síðasta löggjafarþingi og það var sent þá til umsagnar hv. umhverfisnefndar. Það ákvæði sem við erum að fara yfir hér í þessu frumvarpi var inni í frumvarpi til laga um jarðrænar auðlindir. Það er ekki deilt um það. Það mál fékk mjög mikla umfjöllun í iðnaðarnefnd og umhverfisnefnd fékk aðkomu að því. Síðan ákvað öll iðnaðarnefnd, reyndar fyrir utan Vinstri hreyfinguna – grænt framboð, að leggja fram það frumvarp sem við ræðum hér. Það var þverpólitísk sátt að því leyti til um málið milli þingflokka Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks, Frjálslynda flokksins og Samfylkingar. (KolH: Það var í fyrra.) Hæstv. forseti. Hv. þingmaður getur komið hingað aftur og spurt mig en þetta mál hefur fengið mjög ítarlega umfjöllun og það er ágætlega að því staðið á alla vegu.