132. löggjafarþing — 38. fundur,  7. des. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[17:44]
Hlusta

Frsm. meiri hluta iðnn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þessi umræða fer vel af stað. Hún er á málefnalegum nótum. Álæði og brjáluð virkjunarstefna — þetta er náttúrlega þvílíkur málflutningur í andsvari sem tekur eina mínútu og á að fjalla efnislega um þætti málsins. Það er alveg ljóst að ef fara á að gefa út rannsóknarleyfi (Gripið fram í.) þá mun umhverfisráðuneytið og undirstofnanir þess eiga aðkomu að útgáfu slíks leyfis og veita umsögn um það. Það er framfaraspor frá því ástandi sem nú er. Það kom skýrt fram hjá fulltrúum þessara ágætu stofnana. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við höldum því til haga og förum rétt með hlutina hér, að verið er að hleypa stofnunum umhverfisráðuneytisins að því ferli sem úthlutun rannsóknarleyfanna er.