132. löggjafarþing — 38. fundur,  7. des. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[18:36]
Hlusta

Frsm. minni hluta iðnn. (Jóhann Ársælsson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jafnvel þó að menn hafi þá skoðun sem hv. þingmaður setti hér fram, — ég ætla ekkert að gagnrýna hana — að það þurfi að vera hægt að rannsaka orkulindirnar þá finnst mér að ástæða hafi verið til þess að hv. þingmaður svaraði því hvers vegna í ósköpunum þeir sjálfstæðismenn vilji að hæstv. ráðherra hafi þetta valkvæða ákvæði til þess að fá þeim í hendur nýtingarleyfin um leið, hvers vegna ekki sé nóg að úthluta nýtingarleyfunum þegar rannsóknum er svo komið að hægt er að sækja um nýtingarleyfi, hvers vegna þetta vilyrði þurfi að vera til staðar.

Sér hv. þingmaður það fyrir sér að þetta skapi óskaplega eðlilegt ástand á þessum markaði? Ég veit að hv. þingmaður man ósköp vel hverjir mættu á fundinn hjá okkur í nefndinni til þess að tala við okkur. Ég taldi þá upp hérna áðan. Það voru engir aðrir. Það voru opinberu orkufyrirtækin. Þau eru öll alveg prýðileg fyrirtæki. Það er ekkert að þeim og allt í lagi með það. En þegar verið er að tala um samkeppni á þessum markaði þá geri ég ráð fyrir því að aldrei geti orðið eðlileg samkeppni nema nýir aðilar eigi möguleika á að koma inn á markaðinn. Það er algjörlega númer eitt til þess að tryggja samkeppnina að nýir aðilar eigi möguleika á að koma inn á markaðinn. En það er ekki verið að huga að þeim eins og ætti að gera að mínu viti. Mér finnst að hv. þingmaður ætti að svara þeim spurningum sem ég hef sett hér fram um það. Hvernig stendur á því að hann og aðrir sjálfstæðismenn í nefndinni og líklega í öllum þingflokknum eru tilbúnir að skrifa upp á þetta valkvæða leyfi (Forseti hringir.) sem ráðherrann getur gefið út?