132. löggjafarþing — 38. fundur,  7. des. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[18:43]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Við fjöllum um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Það er ekki nema von að þeir sem ekki hafa sérstaklega skoðað hvað er um að vera og hvað hefur verið um að vera á Alþingi núna í tvo vetur séu frekar ruglaðir því að í fyrra kom fram frumvarp um jarðrænar auðlindir sem átti að taka við af þessu frumvarpi. Það tengist reyndar frumvarpi um vatnalög sem einnig var lagt fram síðast og átti að taka við af vatnalögunum frá 1923 sem getið var hér áðan. Síðan kemur fram í vor þetta frumvarp sem heitir sama nafni og það sem hér er flutt og svo kemur viðskiptaráðherra aftur með þetta frumvarp um breytingu á lögum um nýtingu og rannsóknir á auðlindum í jörðu.

Þetta ferli hefur líka verið sérkennilegt. Frumvarpið um jarðrænu auðlindirnar sem kom hér inn í fyrra mætti strax mjög harðvítugri andspyrnu, fyrst miklum spurningum og athugasemdum og síðan andspyrnu frá ekki bara þeim sem hér hafa tekið að sér hlutverk stjórnarandstöðu nauðugir viljugir heldur líka samfélaginu almennt og sérstaklega stofnunum á sviði náttúruverndar og umhverfismála. Þá var gripið til þess ráðs að búa til þetta litla frumvarp, þennan kálf eða kvígu eins og það var kallað hér áðan, í vandræðum síðasta vor þegar sýnt var að þeir eldar sem upp voru komnir gætu breyst í mikinn voða. Sem betur fer endaði það nú með því að hvorki boli né kálfur var leiddur hér í gegnum þingið í vor. Og svo kemur þetta frumvarp nú.

Fyrst er nú við þetta að bæta að ferill þeirrar nefndar sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu eins og það er nú orðið eftir umfjöllun í iðnaðarnefnd — nú er ég að vísu ekki með það skjal þannig að ég verð að fara með það eftir minni — nefndar sem á að starfa í nokkurn tíma og gera sér og landsmönnum öllum, hagsmunaaðilum og haghöfum ýmsum, grein fyrir því hver framtíðarskipan getur orðið í þessum málum um nýtingu auðlinda, jarðrænna eða í jörðu eða vatnsafls eða hvernig það er nefnt og fer eftir því í hvaða plaggi maður er staddur.

Þessi nefnd leit fyrst dagsins ljós á pappír einmitt í því stóra frumvarpi sem ég nefndi áðan, frumvarpinu um jarðrænar auðlindir. Þá var hún í því samhengi að að því frumvarpi samþykktu — sem var mjög gagngert frumvarp og mótaði stefnu til mikillar framtíðar og í ranga átt að því er ég taldi og tel — átti hún að taka við og athuga málin. Í nefndinni áttu að sitja fulltrúar allra flokka, ég man ekki hvort þar áttu að vera einhverjir fleiri en örugglega í samráði við hina og þessa sérfræðinga, en í raun og veru var verksvið nefndarinnar orðið mjög lítið að samþykktu því frumvarpi.

Það sem iðnaðarnefnd gerði svo í fyrra, þegar hún tók upp á því að breyta bola í kálf, var að reyna að taka aðalatriðin sem hún taldi vera eða það brýnasta sem hún taldi vera í stóra frumvarpinu, í stóra bola, og nota það til að skapa kálfinn og þá var ekki það sísta að úr því að farin væri þessi hjáleið þá ætti endilega að setja á stofn þessa nefnd sem síðan rannsakaði framhaldið.

Það ber eiginlega að harma að sá kafli frumvarpsins skuli ekki hafa verið samþykktur í vor því að hann var kannski það bitastæðasta í frumvarpinu öllu, í stóra bola, að menn settust niður yfir þetta mikla úrlausnarefni sem enn bíður okkar að ákvarða, að reyna að leita sameiginlegrar leiðar í eins mikilli sátt við guð og menn og hægt er í þessum efnum til að koma okkur saman um nýtingu og háttalag um orkulindir. Það hefur ekkert verið skýrt en kemur vonandi fram við þessa umræðu hér hvers vegna iðnaðarráðherra ákvað, um leið og hún valdi þá leið í vandræðum sínum með stóra bola, að taka kálfinn og að fella út úr honum ákvæðin um skipun þessarar nefndar.

Það er, forseti, furðulegt að iðnaðarráðherra skuli hafa gert það, því hafi verið ástæða til að hafa ákvæðin um nefndina inni í fyrsta frumvarpinu um jarðrænar auðlindir þá var svo sannarlega ástæða til að hafa það inni í þessu frumvarpi, enda gerði iðnaðarnefnd ráð fyrir því í fyrra og er reyndar söm við sig nú. Og það verður að segja meiri hluta iðnaðarnefndar til hróss í þessu máli að hún hefur dirfst, þvert á vilja ráðherra greinilega, að setja aftur inn þetta ákvæði. Svo er auðvitað spurning hvort það á betur heima í frumvarpinu eða utan þess eins og það er borið fram nú þar sem gert er ráð fyrir að ráðherra veiti, þangað til lög eru samþykkt eða nefndin komist að niðurstöðu sem unað verði við, þetta vilyrði um nýtingarrétt vatnsaflsvirkjana sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu eða í þeim lögum sem að lokum kæmu út úr því. Það er spurning hvort menn hafa geð í sér til að setjast í slíka nefnd þegar ráðherra hefur sjálf allt vald í höndum sér til úthlutunar þessa vilyrðis þvert á það sem nefndarmenn kynnu að vera að hugsa um og án nokkurra reglna. Í öðru lagi hlýtur maður að fjalla hér nokkuð rækilega um hvernig ráðherranum dettur í raun og veru í hug að vilja fá vatnsaflið inn í lög sem gera ráð fyrir því að hún geti eða verði þar með knúin til að veita það vilyrði til nýtingar sem hér er um að ræða.

Hv. fyrri ræðumaður, Jóhann Ársælsson, sagði það um ráðherra að í raun og veru ætti ráðherrann að fagna þeirri breytingartillögu sem hér er flutt um að þessi kaleikur sé frá henni tekinn vegna þess að það er alveg ljóst af tíðindum þessa árs eða tíðindum sumarsins og haustsins að það verður gríðarlegur þrýstingur á ráðherrann að veita slík vilyrði um leið og hún veitir rannsóknarleyfin. En það er kannski einmitt þess vegna sem ráðherra er að þessu að hún vill fá þennan þrýsting og geta þá notað þetta vilyrði til þess að drífa pólitík eins og henni sýnist. Ráðherranum hefur reyndar á öðrum stöðum þar sem hún hefur komið við í pólitískum efnum á undanförnum missirum beitt sér fyrir aðgerðum og lagabreytingum sem auka vald ráðherrans. Nýjasta dæmið er auðvitað Byggðastofnun þar sem ráðherrann virðist stefna að því að hún leggi meira og minna upp laupana af sjálfsdáðum og síðan verði þau verkefni sem Byggðastofnun hefur færð inn í ráðuneytið þannig að ráðherra hafi beinan úthlutunarrétt og geti komið þeim gæðum sem í þeim úthlutunarrétti felast til þeirra sem henni þóknast. Ég verð að segja hér í framhjáhlaupi að ég hef aldrei verið mjög hrifinn af þessari stofnun, Byggðastofnun, en þó hefur mér verið sagt og mér hefur skilist að einkum hin síðari ár hafi fagmennska heldur orðið meiri en áður var, bæði í starfi stofnunarinnar sjálfrar og einnig í störfum að úthlutun og atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni. (Gripið fram í: Undir forustu Framsóknarflokksins.) Vissulega undir forustu Framsóknarflokksins en með ráðum og dáð allra þeirra sem þarna koma að máli sem er vissulega frá fornu fari nokkurn veginn þverpólitísk stjórn, a.m.k. að flokkslit þó að hún sé það kannski ekki alveg að stefnu í landsmálum því að þarna hafa á einhvern hátt valist einkum nokkuð harðkjarna byggðastefnumenn og hefði hugsanlega verið kostur fyrir stofnunina að hafa fulltrúa höfuðborgarsvæðisins þar á meðal vegna þess að byggðastefna er auðvitað mótsögn í sjálfu sér ef hún á bara við það að beinast að byggðum utan höfuðborgarsvæðisins.

Í þessum byggðamálum hefur verið ljóst að ráðherrann hæstv., sú sama og hér er um að ræða, hefur smátt og smátt verið og haft þá stefnu að beina valdinu til sín þannig að hún hafi valdið en ekki sú stofnun sem þarna var um að ræða. En af hverju var valdið sett til hennar í upphafi? Nú tek ég enn fram að margt hefur þar farið á verri veg en menn ætluðu. Það var auðvitað til þess að því valdi og þeim fjármunum sem í þessari stofnun fólust væri varið með tilliti til þeirra hagsmuna sem átti að verja en ekki í flokkspólitískum úthlutunum sem alltaf er hætt við þegar ráðherra hefur þetta vald. Þetta virðist því vera ákveðið munstur hjá ráðherranum og vekur ekki traust um það hvernig hún fari með vald sem hún er hér að reyna að afla sér.

Menn hafa rætt hér nokkuð um það, einkum formaður iðnaðarnefndar, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, að með einhverjum hætti hafi minni hluti iðnaðarnefndar hlaupist undan merkjum frá því í fyrra og saknar þar vina í stað sem minni hlutinn er, vegna þess að hann flutti í fyrra það frumvarp sem þá var flutt og leiddi þá kálfinn hér inn á vettvang ásamt meiri hlutanum. Það er rétt og verður ósköp einfaldlega að ítreka að það var gert í þeirri stöðu að menn voru að reyna að bjarga því sem bjargað varð af þessari skrýtnu og miklu lagabreytingartillögu. Það sem hefur gerst síðan er að enn hefur aukist í fréttir af áætlunum um virkjanir og iðjuver í framhaldi af því og það er augljóst að það umhverfi sem við búum við núna er jafnvel enn flóknara og enn verra við að eiga af hálfu ráðherra, sem ekki hefur neitt við að styðjast nema sitt eigið vit og geðþótta, en þó var á þeim tíma sem um er að ræða, síðastliðið vor.

Það er alveg augljóst að við þær breytingar sem hafa orðið hér í umhverfi orku-, virkjunar- og umhverfismála á síðustu missirum þá verður ráðherra, framkvæmdarvaldið, að hafa ákveðnar leikreglur að styðjast við þegar hún úthlutar leyfum bæði til rannsókna og enn fremur til nýtingar. Það hefur það mikið gerst á öllum þessum sviðum að það er ómögulegt fyrir ráðherrann til lengdar annað en að hafa slíkar reglur ef hún vill standa sig faglega og standa pólitískt rétt að málunum. En auðvitað má segja að þegar mikið er um að vera og þegar fram undan eru greinilega miklar umbyltingar á þessu sviði þykir ráðherrum og valdsmönnum af ákveðnu tagi þægilegt að geta farið að geðþótta sínum. Það er auðvitað fullkomlega í stíl þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr, ríkisstjórnar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks, og þeirra ríkisstjórna sem þeir flokkar hafa myndað áður í Íslandssögunni á öldinni sem leið, að sækja sér einmitt vald til úthlutana sem allra mest vegna þess að völd þeirra eða réttara sagt krafturinn á bak við pólitískt starf þeirra byggist ekki á því að reyna að breyta samfélaginu til einhverrar áttar, að hafa einhverjar þær hugsjónir eða hugmyndir sem geti leitt af sér betri samskipti, betri reglur, t.d. jafnari stöðu manna sem við jafnaðarmenn mundum leggja áherslu á, heldur hafa þessar ríkisstjórnir einkum verið myndaðar til þess að skipta með sér völdum og úthluta gæðum sem hafa staðið ráðherrum og ríkisstjórnum til boða að úthluta á milli vildarvina sinna í Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Við munum að lengst af á síðustu öld var atvinnulífinu skipt í tvennt eftir einmitt þeim sömu línum og skáru í sundur og skildu á milli Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks og þær ríkisstjórnir Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks sem hér sátu höfðu gert sérstaka samninga um það formlega eða óformlega að hvor parturinn af atvinnulífinu um sig, sjálfstæðisparturinn og framsóknarparturinn, nyti sérstakrar velvildar hjá ríkisstjórninni og þar yrði samið um samskipti og tækifæri þessara atvinnulífsparta til framhaldslífs.

Það út af fyrir sig kemur því heldur ekki á óvart en ég hlýt að spyrja Birki Jón Jónsson, hv. þingmann og formann iðnaðarnefndar, hvort það sé ekki einmitt þannig sem þetta er hugsað að í því hléi sem nú skapast þangað til nýjar aðstæður komist upp geti hæstv. iðnaðarráðherra og ríkisstjórnin öll ráðið því sjálf án reglna, vegna þess að reglurnar virðast ekki vera til, hverjir fá rannsóknarleyfi og hverjir fá vilyrði til nýtingarleyfis og síðan nýtingarleyfið sjálft.

Hér var svolítið rætt um umhverfismat áðan og formaður iðnaðarnefndar taldi að það kæmi hér mjög við sögu og lagaði þetta heilmikið. Ég þori nú ekki að fara með það, af því að ég er ekki með lögin fyrir framan, en mig minnir að umhverfismat geti einmitt komið til greina við rannsóknarleyfi og sérstaklega við rannsóknarleyfi sem taka til jarðvarma eða gufuafls, eins og hv. þm. Kjartan Ólafsson kallaði það áðan, vegna þess að það veldur raski.

Nú má ræða lengi um umhverfismatið en umhverfismatið sker ekki úr um það hver fær leyfið. Það er misskilningur hjá hv. formanni iðnaðarnefndar að það geri það. Umhverfismatið sker í raun og veru ekki úr um neitt af því tagi heldur er umhverfismatið ákveðinn ferill sem tryggir að allar skoðanir og allar athugasemdir komi fram áður en hið pólitíska vald tekur ákvörðun og ekki ákvörðun um leyfið heldur ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli fara fram eða ekki. (Gripið fram í.) Það er réttur skilningur, já. Í raun og veru verð ég að biðja hv. þingmann afsökunar á því að hafa gert honum upp aðrar skoðanir í þessu efni því að þetta vita menn auðvitað og einkum þeir sem sitja í iðnaðarnefnd. En vegna þess arna er umhverfismatið eiginlega ekki partur af þessari umræðu. Það kemur ekkert hér við sögu, það skiptir engu máli gagnvart því hver hefur rannsóknarleyfið og hver hefur nýtingarleyfið. Þá er eiginlega næst eftir þessar stuttu inngangsathugasemdir að fara hér yfir … (Forseti hringir.)

(Forseti (BÁ): Telur hv. þingmaður að hann eigi mikið eftir af ræðu sinni?)

Já, ég tel að nokkuð sé eftir, forseti.

(Forseti (BÁ): Þá hyggst forseti gera hlé á þessum fundi til klukkan átta og óskar eftir því að hv. þingmaður geri hlé á ræðu sinni þar til fundur hefst að nýju vegna kvöldmatarhlés og nefndarfunda.)