132. löggjafarþing — 38. fundur,  7. des. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[21:31]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Innihaldið var það að ástæðulaust með öllu væri að láta undan þeim vilja hæstv. iðnaðarráðherra að hann geti veitt rannsóknarfyrirtækjum vilyrði fyrir nýtingarrétti. Ég taldi það upp hér með ýmsum hætti. Í fyrsta lagi með því að fara yfir frumvarp það sem hann hefur flutt og telja það til sem mér þykir jákvætt í því frumvarpi. Síðan rakti ég, að vísu í löngu máli en þó, að ég held, tiltölulega skýru, þær breytingar sem eru að verða í virkjunar-, orku- og umhverfismálum hér á Íslandi. Þær breytingar felast m.a. í því að við erum hér komin í samkeppnisumhverfi á mjög viðkvæmum stað í okkar þjóðlífi þar sem engin samkeppni hefur ríkt og þar sem almannavaldið ber mikla ábyrgð á því að skapa það samkeppnisumhverfi.

Í öðru lagi rakti ég tæknibreytingar sem kynnu að gjörbreyta stöðu þessara mála nú á næstunni og í þriðja lagi minntist ég á þá miklu áherslu á umhverfismál sem nú er komin upp og hefur verið að vaxa hér í þrjá áratugi. Ég held að fjórði þátturinn hafi verið í þessu, sem er dottinn úr mér sjálfsagt vegna þess að langar ræður þreyta líka þann sem flytur þær. En mér þótti rétt að kynna hér mín viðhorf í þessum málum öllum og koma því rækilega til skila hvers vegna ég er á móti því að ráðherra haldi áfram á þeirri braut sem hann hefur verið á að undanförnu og skapi hér kaos í staðinn fyrir skipulag — skapi hér náttúrufjandsamlega og umhverfisfjandsamlega stefnu í orku- og iðnaðarmálum í staðinn fyrir að reyna að ná þeirri sátt í þessum málum sem ég tel að okkur beri skylda til hér í íslenskum stjórnmálum og íslensku þjóðlífi.