132. löggjafarþing — 38. fundur,  7. des. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[22:33]
Hlusta

Frsm. meiri hluta iðnn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kemur náttúrlega úr hörðustu átt þegar hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir talar um hroka í gjörðum stjórnarmeirihlutans og í málflutningi okkar. Hér hefur hv. þingmaður talað í rúman klukkutíma og talað niður til þess sem hér stendur, talað niður til hæstv. iðnaðarráðherra og sýnt ekkert nema hroka. Hv. þingmaður talaði um það áðan að sá sem hér stendur þyrfti að lofta út úr heila sínum. Hvers lags málflutningur er þetta? Er þetta efnisleg umræða sem hér á sér stað?

Hæstv. forseti. Það er dapurlegt að hlusta á þennan málflutning og það er dapurlegt að heyra málflutning hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur. Hún minnist ekki orði á það að með því frumvarpi sem hér liggur fyrir er umhverfisráðuneytinu og undirstofnunum þess veitt umsagnaraðild að þeim rannsóknarleyfum sem við ræðum hér um. Verið er að hleypa fulltrúum umhverfisins að þessu máli og hv. þingmaður, sem kennir sig við umhverfisvernd, minnist ekki orði á það í sinni löngu ræðu hér.

Það er náttúrlega með ólíkindum að hlusta á slíkan málflutning og það hlýtur að segja okkur að það er eitthvað holt í þessu. Þetta er holur málflutningur, málflutningur sem er einungis til þess gerður að upphefja sjálfan sig á kostnað annarra. Og þvílíkur málflutningur sem kom fram hjá hv. þingmanni hér áðan, það voru engin rök á bak við sumt af því sem þingmaðurinn sagði. Það er margt gott út frá umhverfissjónarmiðum í þessu frumvarpi en hv. þingmaður hefur kosið að líta fram hjá því og drepa umræðunni á dreif og slíkt er ekki til fyrirmyndar.