132. löggjafarþing — 38. fundur,  7. des. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[22:37]
Hlusta

Frsm. meiri hluta iðnn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er langt gengið þegar hv. þingmaður talar hér í rúma klukkustund og hefur greinilega ekki að fullu skilið megininntak þess frumvarps sem við ræðum. Hér er verið að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og 1. gr. þess hljóðar svo:

„Við 1. mgr. 1. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Lögin taka einnig til rannsókna á vatnsafli til raforkuframleiðslu.“

Það hefur ekki verið í núgildandi lögum. Þess vegna hafa stofnanir umhverfisráðuneytisins ekki haft aðkomu að þessum rannsóknarleyfum og útgáfu þeirra hvað varðar vatnsaflið. Ég ætla því að leiðrétta þennan misskilning hér og nú. Þetta er alveg kristaltært.

Síðan deilum við einfaldlega ekki sömu lífssýn, ég og hv. þingmaður. Ég gat ekki skilið annað en að hv. þingmaður hálfskammaðist sín fyrir að vera Íslendingur af því að hér væri álframleiðsla. Af hverju? Af því að ál væri m.a. notað í hergagnaframleiðslu. Hæstv. forseti. Í hvers kyns draumheimi lifum við? Eigum við að skammast okkar fyrir það að hér á landi er fyrirtæki sem heitir Alcoa af því að eitthvert annað álfyrirtæki úti í heimi, sem kannski heitir Alcoa, framleiðir ál sem hugsanlega verður notað í þessu skyni? Eigum við bara að skammast okkar? Þarf ekki heimurinn á áli að halda? Keyrir hv. þingmaður ekki bíl? Flýgur hv. þingmaður ekki í flugvélum? Þurfum við ekki á þessum málmum að halda? Eigum við að skammast okkar ef svo slysalega vill til að einhver hluti af þessari vöru verður notaður í eitthvað sem viðkemur hergögnum? Við getum einfaldlega ekki ráðið við það. Það er voðalega fallegt að tala svona en því miður er heimurinn flóknari en svo að hægt sé að koma í veg fyrir svona hluti, því miður.

Við erum einfaldlega mjög ósammála um þá atvinnuuppbyggingu sem hefur átt sér stað. Ég er mjög ánægður með þann uppgang sem á sér stað á Austurlandi og það er búið að virkja Austfirðinga með þeim hætti sem greinilegt er.