132. löggjafarþing — 38. fundur,  7. des. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[22:41]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Í dag hófst allnokkuð löng umræða og augljóst að margir alþingismenn hafa kvatt sér hljóðs við umfjöllun um þetta litla mál. Umræðan hefur þegar staðið mjög lengi þó að ræðumenn hafi enn verið fáir sem tekið hafa þátt í umræðunni og hver um sig þurft að fara um nokkuð breitt svið. Ástæðan fyrir þessu er harla einföld, virðulegur forseti. Orrustan um orkuauðlindir Íslands er hafin. Það frumvarp sem hér er til umfjöllunar er hluti af þeirri orrustu. Sameinaður Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur hefur það sem næsta stóra, pólitíska verkefni sitt að deila út virkjunarleyfum í jarðvarma og vatnsföllum til hinna opinberu fyrirtækja og í framhaldinu að færa þau með handafli í hendur einkaaðila og þar með slá einkaeign á sameiginlegar auðlindir landsmanna til þessa dags með sama hætti og þessi öfl beittu sér fyrir og stóðu vörð um að færa auðlindir hafsins úr eigu almennings og í eigu einkaaðila. Þetta, virðulegur forseti, eru hinar stóru pólitísku línur. Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkurinn eru búnir að gefa vildarvinum sínum fiskinn í sjónum, nú er komið að fossum landsins og jarðhitanum, sameiginlegum auðlindum okkar og orkufyrirtækjum landsmanna, samanber yfirlýsingar iðnaðar- og viðskiptaráðherra fyrr á þessu ári.

Þetta verða hin stóru átök í stjórnmálum hér á næstu árum og munu auðvitað líka tengjast skiptum skoðunum í umhverfismálum og í atvinnustefnu og munu þess vegna trúlega mjög setja svip sinn á alla þjóðmálaumfjöllun, þær hræringar. Og þó að þetta frumvarp sé lítið og lélegt, virðulegur forseti, þá er það vegna þess að það er hluti af þeirri stóru heildarmynd, einkavæðingu á auðlindum landsins, sameiginlegum auðlindum landsmanna, sem það kallar á mikla umræðu hér og auðvitað líka vegna þess að því miður er hér staðið að verki, ég vil leyfa mér að segja, á skammarlegan hátt því að frumvarpið eins og það kemur frá hv. iðnaðarnefnd, þar sem ég á sæti, er því miður hrákasmíð sem er langt því frá að vera virðingu hins háa Alþingis samboðin.

Ég vona að hv. formaður iðnaðarnefndar taki ekki orð mín sem hroka eða yfirlæti í hans garð eins og hann gerði um orð þess sem talaði á undan mér í málinu. Við alþingismenn þekkjum ekki formann iðnaðarnefndar, hv. þm. Birki Jón Jónsson, nema að góðu einu og góðri framkomu í þingsölum og málefnalegri umfjöllun alla jafna og góðri verkstjórn í iðnaðarnefnd og á engan hátt á hann hallað með þessum orðum, þann vaska svein og þingmann úr Norðausturkjördæminu.

Það sér auðvitað hvert barn að það að leggja fram frumvarp á Alþingi um að fela einhverjum að afhenda eitthvað og segja síðan í sama frumvarpi að eftir að það taki gildi eigi að skipa sérstaka nefnd um að setja reglur um hvernig eigi að afhenda það, er náttúrlega bara, virðulegur forseti, fyrir neðan allar hellur. Það er ekkert sem kallar á slíka fljótaskrift í þessum málum. Í liðlega 100 ára raforkusögu Íslands hefur ekki þurft að úthluta þessum virkjunarleyfum með neinu hraði og það er ekkert sem kallar á að úthluta þeim á næstu níu mánuðum. (Iðnrh.: Er ræðumaður í stjórn Landsvirkjunar?)

Já, ræðumaður er í stjórn Landsvirkjunar og honum er vel kunnugt um alla þá mörgu kosti sem fyrir hendi eru í orkumálum Íslendinga, m.a. í jarðhitanum, sem Landsvirkjun hefur m.a. tryggt sér með samningum nýverið á Norðausturlandi, eins og hæstv. ráðherra þekkir og mér þykir vænt um að hæstv. ráðherra minnti mig á að taka það sérstaklega fram að ég er stjórnarmaður í Landsvirkjun og það er rétt að menn hlýði á orð mín með það í huga þannig að hagsmunir fyrirtækisins liti örugglega ekki málflutninginn á Alþingi. Þar hef ég setið síðustu sex ár og þar áður um átta ára skeið sem varaformaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur. Það er rétt ábending hjá hæstv. iðnaðarráðherra að af því starfi hygg ég að ég hafi nokkuð glögga mynd af þeim kostum sem uppi eru í orkuöflun á Íslandi nú um stundir.

Ég sé ekki að það sé neitt sem knýr á um að afgreiða með slíkri fljótaskrift í byrjun desember þessi leyfi, jafnilla og þau eru úr garði gerð, til hæstv. ráðherra. Ég tel einfaldlega að gera eigi það sem upp var lagt með í vor, að setja eigi reglur um hvernig þeim leyfum eigi að úthluta. Það eigi að vera almennar reglur, gagnsæjar reglur og það eigi að vera reglur sem séu öllum ljósar og aðgengilegar. Og að öllum gefist kostur á að taka þátt í að sækja um þau gæði sem virkjunarleyfi á Íslandi eru. Ég held að það sé kannski sérstaklega mikilvægt núna vegna þeirra kerfisbreytinga sem við erum að fara í, vegna þeirrar samkeppnisvæðingar sem við skulum vona að við fáum að sjá í vaxandi mæli á orkumarkaðnum á Íslandi á komandi árum þó að auðvitað megi færa rök fyrir því að íslenskur orkumarkaður sé svo lítill að hann beri ekki samkeppni á slíkum markaði. Ýmsir hafa orðið til þess að halda því fram, virðulegur forseti, að 290 þúsund manna markaður sé einfaldlega allt of lítill til að þar geti nokkurn tíma borið sig samkeppni í raforkuiðnaði, a.m.k. eru fyrirtækin þar giska fá nú um stundir eins og raforkuneytendur og landsmenn allir þekkja.

Það atriði frumvarpsins sem við höfum viljað gera breytingar á, ég og hv. meðnefndarmaður minn, Jóhann Ársælsson, og við þingmenn Samfylkingarinnar, er að rannsóknarleyfi sem úthlutað er af hálfu iðnaðarráðherra fylgi ekki vilyrði um nýtingarrétt. Og að síðan verði undinn bráður bugur að því að setja almennar reglur um hvernig eigi að velja úr og úthluta nýtingarleyfunum. Ég held að það séu svo almenn og augljós sjónarmið um sanngirni og jafnræði í úthlutun á veigamiklum opinberum gæðum að það hlýtur einfaldlega að vekja undrun okkar að þessi ósk okkar í hv. iðnaðarnefnd skyldi ekki vera tekin til greina, jafnsjálfsögð og hún er, ekki síst þegar haft er í huga að við hv. þingmenn Samfylkingarinnar í nefndinni gerðum meiri hlutanum það alveg ljóst að með því að fá fram þá breytingu mundum við ljá málinu stuðning okkar, þ.e. þá væri hér yfirgnæfandi samstaða í þinginu þar sem stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn legði málinu lið ásamt stjórnarflokkunum. En það er greinilega svo brýnt að hæstv. iðnaðarráðherra fái að úthluta vilyrðum til virkjunarleyfa í framtíðinni án þess að um það gildi nokkrar einustu reglur að það er ekki tilvinnandi að fórna þeim réttindum ráðherrans næstu tíu mánuðina til að ná um málið góðri samstöðu í þinginu. Þó að vissulega sé hluti þingmanna stjórnarandstöðunnar eftir sem áður andvígur frumvarpinu liggur málið þannig að það hefðum við stutt út úr nefndinni ef þessi breyting hefði náðst fram.

Þá hljótum við að spyrja hvaða gríðarlegu hagsmunir þetta eru. Ég vænti þess að í andsvari muni hæstv. iðnaðarráðherra upplýsa okkur um vilyrði fyrir hvaða virkjunarleyfum hæstv. ráðherra telur svo nauðsynlegt að hún fái að úthluta á næstu tíu mánuðum að ekki sé hægt að bíða með að afhenda ráðherra þetta vald þar til settar hafa verið almennar reglur um hvernig eigi að velja á milli umsækjenda. Það verður athyglisvert að heyra svör hæstv. ráðherra. Er það virkjunarleyfið í Skjálfanda sem hún ætlar að úthluta núna á næstu vikum og mánuðum? Er það virkjunarleyfið í Skagafirðinum eða eru það virkjunarleyfi annars staðar á landinu?

Ástæða er til að undirstrika að við höfum ekki talið annað en sjálfsagt að hæstv. ráðherrann gæti úthlutað rannsóknarleyfum og þess vegna þyrfti ekkert að stöðva orkuiðnaðinn í því að halda áfram að kanna og skoða þessa virkjunarkosti, vega þá og meta út frá hagkvæmni og umhverfisaðstæðum o.s.frv. En það er einfaldlega þannig í orkuiðnaðinum að gríðarlega langan tíma tekur frá því að hafnar eru rannsóknir og þangað til hægt er að taka ákvörðun um að virkja. Þess vegna er illskiljanlegt að ekki dugi að veita rannsóknarleyfin heldur sé einhver knýjandi nauðsyn á því að veita vilyrði um virkjunarleyfi án þess að nokkrar reglur séu um hvernig forgangsraða eigi umsækjendum í slíkum tilvikum. Ég ítreka að ég treysti því að hæstv. iðnaðarráðherra komi í andsvar og geri grein fyrir þeim mikilvægu og knýjandi hagsmunum sem standa til þess að hæstv. ráðherra fái vald til að úthluta á næstu mánuðum þeim réttindum sem við Íslendingar eigum saman, virkjunarleyfunum í vatnsföllum. Í hvaða vatnsföllum er það?

Það er líka mikilvægt að hæstv. ráðherra í þessari umræðu — þess gefst þó náttúrlega ekki neinn kostur í stuttu andsvari en ég treysti því að hæstv. ráðherra muni halda eina eða tvær ræður við umræðuna — geri okkur nokkuð glögga grein fyrir áformum sínum um einkavæðingu Landsvirkjunar og Rafmagnsveitna ríkisins, þeim áformum sem ráðherra kynnti sjálf hér ekki alls fyrir löngu, því að líkur eru til þess að þau gæði sem hér er verið að fela ráðherranum, að úthluta reglulaust, komi m.a. í hlut þess fyrirtækis sem ég sit í stjórn fyrir, Landsvirkjunar, komi m.a. í hlut Rafmagnsveitna ríkisins. Ef það er hluti af myndinni að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra ætli síðan í framhaldinu að einkavæða þessi fyrirtæki á næstu árum og að það sé pólitísk stefna ríkisstjórnar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks að afhenda einkaaðilum í landinu Landsvirkjun og Rafmagnsveitur ríkisins, þá eru þau virkjunarleyfi sem hæstv. ráðherra er núna að fá leyfi til að úthluta, þessi eign almennings, þessi sameign okkar allra, einfaldlega á hraðri leið í einkavinavæðinguna. Þar með er verið að einkavæða auðlindir landsins. Þetta er slíkt grundvallaratriði í málinu að ráðherrann verður að fara vandlega yfir það hvort taka eigi mark á fyrri yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar um einkavæðingu Landsvirkjunar og Rafmagnsveitna ríkisins í kringum þá viljayfirlýsingu sem gerð var um sölu Reykjavíkurborgar á eignarhlut sínum í Landsvirkjun, sem við skulum öll vona að gangi sem allra fyrst fram. Og hvenær megi þá vænta þess að fyrirtækin verði einkavædd og hvort það sé ætlun hæstv. ráðherra að afhenda þessum fyrirtækjum sem hún er að fara að einkavæða eitthvað af þeim virkjunarleyfum sem hér er verið að fá henni vald til að gefa vilyrði fyrir og hvaða fallvötn landsins er þá verið að einkavæða í raun með frumvarpinu. Er það Skjálfandinn, er það Skagafjörðurinn eða eru það einhverjar aðrar ár?

Ég ítreka, virðulegur forseti, að við í Samfylkingunni hefðum ekkert við það að athuga að gefin væru út rannsóknarleyfi út af fyrir sig þannig að iðnaðurinn geti haldið áfram að sinna uppbyggingu og undirbúningi fyrir verkefni næstu ára. Íslendingar eru fámenn og lánsöm þjóð, við erum lánsöm í því að eiga gríðarlega miklar orkuauðlindir, þær orkuauðlindir eigum við auðvitað að reyna að hagnýta skynsamlega án þess þó að ganga freklega á umhverfissjónarmið þau sem við hljótum eðlilega fyrir komandi kynslóðir og skyldur okkar gagnvart heiminum að standa vörð um. Við hljótum eigi að síður að reyna að hagnýta okkur auðlindirnar skynsamlega, m.a. vegna þess að það verður með öðru til þess að auka auðlegð okkar, auka fjölbreytni í íslensku atvinnulífi og auðvitað til þess að leggja okkar lóð á vogarskálarnar, þó að lítið sé, í því að framleiða umhverfisvæna orku sem heimurinn er sorglega fátækur af.

Ég árétta þó að stór uppistöðulón og stórvirkjanir eru auðvitað ekki umhverfisvænar virkjanir og ekki græn orka í þeim skilningi enda hljóta þær virkjanir fremur að vera á undanhaldi eins miklir möguleikar og hafa verið að opnast fyrir okkur í jarðhitanum á undanförnum árum og jafnvel áratugum núorðið. Við höfum séð hversu mikla möguleika og hagkvæma kosti jarðhitinn færir okkur, m.a. í framkvæmdum á vegum Hitaveitu Suðurnesja sem kannski voru fyrstu velheppnuðu framkvæmdirnar eftir að orkuiðnaðurinn varð fyrir talsverðu áfalli við Kröflu á sinni tíð. Með góðu gengi Hitaveitu Suðurnesja endurnýjaðist trú manna á þessa leið og með velheppnuðum virkjunarframkvæmdum hjá okkur í Orkuveitu Reykjavíkur, þegar raforkuvirkjunin á Nesjavöllum var reist og öðrum góðum verkefnum sem síðan hefur verið ráðist í á þessu sviði, held ég að augu manna hafi smátt og smátt verið að opnast fyrir því að í jarðhitanum eigum við mikla sérfræðiþekkingu og okkur hefur tekist að nýta hann með hagkvæmum hætti. Í honum eru ákaflega spennandi verkefni á ferðinni núna.

Verið er að vinna að tilraunum með djúpboranir og þær djúpboranir gætu, ef kenningar þær sem verið er að láta reyna á reynast réttar, aukið talsvert, skulum við láta okkur nægja að segja, orkuvinnslugetuna í hverri og einni háhitavirkjun. Með því að bora miklum mun dýpra en við gerum nú, þessa hefðbundnu 2.000 metra, og fara yfir 4.000 metra niður í jörðina telja menn að jafnvel mætti tvö- til fjórfalda orkuvinnslugetuna eftir bjartsýnustu spám. Það mundi náttúrlega, ef þær kenningar vísindamanna reynast réttar, enn auka þau gríðarlegu verðmæti sem við Íslendingar eigum í jarðvarmanum.

En ég hygg að við höfum ekki síður verið að horfa til jarðvarmans vegna þess að okkur er öllum ljóst að vatnsaflsvirkjanir — einkum þær allra stærstu, svo sem eins og Kárahnjúkavirkjun — og uppistöðulón — ekki síst á viðkvæmum svæðum, eins og deilurnar við Þjórsárver hafa sýnt okkur á undanförnum missirum — eru orðnir umdeildir kostir og sæta mikilli gagnrýni meðan þær virkjanir sem við höfum ráðist í í jarðhitanum hafa verið því sem næst óumdeildar út frá umhverfis- og grenndarsjónarmiðum og er heldur tekið fagnandi. Orkufyrirtækin þurfa þá ekki að fara út í einhvers konar átök við heimamenn eins og við höfum dæmi um til að mynda í Skeiða- og Gnúpverjahreppi því miður, (Gripið fram í: Í Skagafirði.) og víðar auðvitað. Allir þeir sem hafa fylgst með á þessum vettvangi og þessari umræðu átta sig sífellt betur á því að þessar gömlu aðferðir við að virkja eru heldur á undanhaldi. Það er auðvitað sjálfsagt að nýta eftir sem áður hagkvæmustu kostina í því sem hafa minnst umhverfisáhrif.

Á Þjórsársvæðinu er til að mynda þegar búið að virkja mjög mikið og þar er auðvitað ekki ósnortnu svæði til að dreifa. Þar má í virkjunarröðina bæta einhverju af virkjunum og einhverjir slíkir jákvæðir kostir í vatnsafli eru auðvitað eftir í landinu, en almennt talað hljóta þeir kostir að vera víkjandi og við hljótum í vaxandi mæli að horfa til jarðhitans. Það er kannski líka í því ljósi sem maður undrast svolítið að hæstv. ráðherra liggi þessi lifandis býsn á að fá að úthluta vilyrðum til virkjunarframkvæmda í vatnsafli. Hann gæti fengið hér stuðning við að úthluta rannsóknarleyfunum og síðan væri einfaldlega farið í að setja almennar reglur um hvernig menn ætla að vinna úr því að velja hverjir fá virkjunarleyfin þegar rannsóknum er lokið.

Það er auðvitað alveg skýrt að ef sá eða þeir sem rannsaka fengju ekki virkjunarleyfin, sem alla jafna mætti trúlega telja ólíklegt, tryggja lögin jú sannarlega endurgreiðslu til manna á öllum þeim kostnaði sem þeir hafa orðið fyrir við það. Í öllum tilfellum ættu menn að fara skaðlaust út úr því. En það væri þá hægt að gera hlutina í réttri röð, að setja fyrst hinar almennu reglur um það hvernig eigi að úthluta vilyrðum um virkjunarleyfi, og eftir hverju eigi að fara við að forgangsraða umsóknum þar um, og fela síðan ráðherranum það vald að úthluta eftir reglunum — ekki fela honum fyrst valdið til að úthluta og ætla síðan að setja reglur einhvern tíma eftir að hann er búinn að úthluta vilyrðum. Það er svo augljóslega öfug röð á hlutunum að ég held að það hljóti að vera hverjum manni ljóst.

Virðulegur forseti verður að afsaka en mér kom í hug samlíking frá fyrrv. hæstv. forsætisráðherra í þessu sambandi en mér þótti hún satt að segja ekki tilhlýðileg í ræðustóli á hinu háa Alþingi.

Í rauninni er einstök tilraun í gangi á raforkumarkaðnum og verður spennandi að fylgjast með hvernig hún þróast. Kannski það hafi verið mistök hjá okkur Íslendingum að hafa ekki leitað eftir undanþágu frá reglum Evrópusambandsins á raforkumarkaði. Kannski það hafi verið mistök hjá okkur að undirgangast að þær tilskipanir giltu hér því að það regluverk sem menn hafa smíðað í Brussel fyrir raforkumarkaðinn í Evrópu á að þjóna því markmiði að búa í raun og veru til sýndarmarkað nokkurs konar, búa til verslun og viðskipti á einhvers konar tilraunastofu, hafa menn kallað — rafmagn er í raun og veru ekki vara í neinum venjulegum skilningi og þess vegna ekki neinn markaður með hana í þeim venjulega og náttúrulega skilningi sem leggja má í það orð, en það er hægt að skapa viðskiptaumhverfi í raforkugeiranum með nokkuð öflugu regluverki.

Hið evrópska regluverk hefur hins vegar miðað að því að leysa úr verkefnum á mörg hundruð milljón manna meginlandi þar sem raforkumarkaðir hafa ekki verið samtengdir, á meginlandi sem er í nokkrum tímabeltum þannig að álagstoppar í raforkukerfunum eru mismunandi frá einu belti til annars í álfunni. Þannig gátu menn náð mikilli hagkvæmni í raforkukerfið allt í Evrópu með því að skapa því regluverk sem hvetti til þess að menn tengdu saman kerfi þjóðríkjanna og nýttu sér það að álagstopparnir í Evrópu allri væru ólíkir frá einu tímabelti til annars. Er jafnvel talið að Evrópa hafi getað skapað rúmlega 10% afkastaaukningu með þessu.

Hverjum manni er ljóst að aðstæður á 290 þúsund manna eyju langt norður í Atlantshafi, sem er mörg þúsund kílómetra frá næsta landi og frá næsta raforkumarkaði, eru náttúrlega með allt öðrum hætti. Margir hafa talið að að lágmarki 10 milljón manna þjóð þyrfti til þess að standa undir markaðsviðskiptum af því tagi sem við erum að reyna að innleiða til þess að þar gæti skapast einhver öflug samkeppni. En þetta er metnaðarfull og spennandi tilraun, held ég megi segja, hvort á þessu sviði takist okkur Íslendingum eins og á svo mörgum öðrum að gera hið ómögulega, skapa samkeppni á því sem verður ekki kallað neitt annað en dvergmarkaður og er í raun og veru fákeppnismarkaður þar sem örfá fyrirtæki ráða öllum markaðnum. Það fyrirtæki sem ég sit í stjórn í, Landsvirkjun, hefur náttúrlega í orkuframleiðslunni rétt um eða yfir 90% markaðshlutdeild og markaðshlutdeild Orkuveitu Reykjavíkur á smásölumarkaði er náttúrlega algerlega yfirgnæfandi, trúlega með yfir 60% af neytendum í landinu.

Það er að ýmsu leyti vandséð hvernig takast á að skapa samkeppni á þessu sviði. Það verður alla vega ekki til þess að auðvelda það verkefni ef núna, þegar samkeppnin er rétt að hefjast og rétt að fara af stað og einstaklingsframtakið og fjármagnið og fyrirtækin í landinu eru kannski smátt og smátt að átta sig á þessum markaði og þeim möguleikum sem þar eru að opnast — einn af viðskiptabönkunum hélt t.d. ágæta ráðstefnu um þau tækifæri fyrir stuttu síðan, það er mikilvægt að tækifæri verði fyrir nýja aðila til að koma inn á þennan markað ef hér á að takast að skapa einhverja samkeppni. Þetta segi ég sem stjórnarmaður í því fyrirtæki sem er ráðandi í orkuframleiðslunni. Ég held að það væri bara gott fyrir okkur í Landsvirkjun að fá fleiri aðila inn á þennan markað og öfluga samkeppni. Ég hef trú á því að það mundi einfaldlega hvetja Landsvirkjun og hin orkufyrirtækin til að standa sig enn betur í því sem þau eru að gera, ná enn hagkvæmari rekstri og enn betri þjónustu og þeim mörgu jákvæðu áhrifum sem góð og öflug samkeppni getur haft á markaðinn og hagsmuni neytenda.

Virðulegur forseti. Ef unnt á að vera fá nýja aðila inn á þennan markað til að skapa samkeppni í orkuvinnslunni má það náttúrlega ekki vera þannig að klukkan eina mínútu í samkeppni úthluti hæstv. iðnaðarráðherra vilyrðum fyrir bestu virkjunarkostunum til þeirra fyrirtækja sem fyrir eru á markaðnum. Það mundi trúlega gerast ef þetta frumvarp yrði að lögum því þar er ráðherranum falið slíkt vald. Á markaðnum eru enn aðeins hin opinberu orkufyrirtæki og þessi tiltölulega fáu fyrirtæki. Þar eru ekki komnir neinir nýir aðilar inn. Ekki hafa verið settar neinar reglur um það hvernig nýir aðilar gætu komið inn á þennan markað, hvernig þeir fengju aðgang að þessum virkjunarkostum. Þeir hafa ekki haft tækifæri til að gera þær athuganir og rannsóknir sem fyrirtækin sem fyrir eru á markaðnum hafa gert. Því er ástæða til að hafa áhyggjur af því — þó að ég taki það skýrt fram, virðulegur forseti, að auðvitað er ekki hægt að fullyrða neitt um það — að framganga frumvarps þessa gæti þannig verið beinlínis samkeppnishindrandi í raforkuiðnaðinum, þ.e. ef menn rasa um ráð fram og úthluta vilyrðum til virkjunarleyfa of hratt og of fljótt. Eins er ástæða til að hafa áhyggjur af því að ef hæstv. ráðherra hefur frjálsar hendur með úthlutunina þá séu allir bestu kostirnir farnir þegar nýir aðilar kynnu að vilja koma inn á markaðinn. En þetta eru út af fyrir sig bara sum af þeim álitamálum sem nú eru uppi.

Ég held að það sé kannski líka mikilvægt að hæstv. ráðherra geri grein fyrir vilyrðum um hvaða virkjunarleyfum hún ætlar að úthluta á grundvelli þeirrar heimildar sem hér er fengin, vegna þess að ég held að það skipti máli um hina stóru mynd. Erum við kannski í þessu, mér liggur við að segja, örverpi, virðulegur forseti, um þetta litla og lélega frumvarp, að taka ákvörðun um að reisa liðlega 200 þúsund tonna álver eða öllu heldur veita Alcoa leyfi til þess að gera það norður á Húsavík? Er það kannski sú prinsippákvörðun sem hér liggur á borðum þingmanna búin í þessi dularklæði, heimild til ráðherra til að veita vilyrði um virkjunarleyfi inn í framtíðina? Er það kannski hin knýjandi nauðsyn sem ber til þess að ráðherrann fái þessa heimild refja- og tafarlaust? Ef svo er, virðulegur forseti, þá er ekki rétt farið að hlutum.

Nú ætla ég ekkert um það að segja hvort það sé rétt eða rangt í sjálfu sér að fá þessu ágæta alþjóðlega fyrirtæki Alcoa leyfi til að starfrækja álbræðslu á Húsavík, ég hef engar forsendur til að taka efnislega afstöðu til þess hér og nú. (Gripið fram í.) Hvað sagði hæstv. ráðherra? (Iðnrh.: Þú værir náttúrlega á móti því.) Var ekki sá þingmaður sem hér stendur rétt að enda við að lýsa því yfir að hann hefði engar forsendur til þess á þessari stundu að vera með eða á móti því máli? (Iðnrh.: … fram að þessu.)

Það verður að segja eins og er að þegar hæstv. ráðherra missir sig í frammíköll við hv. ræðumenn út af jafnlitlu máli og ætla mætti að þetta væri þá sýnir það auðvitað að hér býr fleira að baki. Það er greinilegt að þær almennu athugasemdir sem ég hef fært fram hér og þær sjálfsögðu ábendingar um að eðlilegt sé að setja fyrst reglurnar um hvernig úthluta eigi leyfum og úthluta svo leyfunum en ekki öfugt, sem ég hélt að hvert mannsbarn ætti að geta skilið, túlkar hæstv. ráðherra sem eindregna andstöðu mína við að Alcoa fái að reisa álver á Húsavík. Þá er ekki annað hægt en að gagnálykta og telja að eitthvað sé til í þeirri kenningu sem ég var rétt í þessu að setja fram og velta upp hvort væri mögulega rétt, að með þessu frumvarpi eigi í raun og veru að taka hina pólitísku ákvörðun um að byggja eitt álver enn, að leyfa Alcoa að reisa um 200 þúsund tonna álver norður á Húsavík.

Ég árétta að það er rangt hjá hæstv. iðnaðarráðherra að ég sé á móti því. Ég hef bara ekki tekið afstöðu til þess, ég hef engar forsendur til þess. Slíka ákvörðun á ekki að taka með svona frumvarpi, með því að lauma í gegnum Alþingi á síðustu dögunum fyrir jól frumvarpi sem virðist vera um eitthvað allt annað og sé bara svona smávegis lagfæring, smávegis redding á lögum. Ef menn ætla að halda áfram þeirri þenslu í stóriðjuuppbyggingu sem verið hefur á undanförnum árum með þeim miklu og alvarlegu áhrifum sem það hefur fyrir nýsköpunar- og þekkingariðnað í landinu þá á að taka um það pólitíska ákvörðun fyrir opnum tjöldum og þá á sú pólitíska umræða að fara fram hér, í atvinnulífinu og í samfélaginu öllu en ekki að vera laumað inn í einhverju litlu frumvarpi eins og þessu án þess að nokkur viti. (Gripið fram í: Án þess að nokkur viti.)

Það er ágætt ef hæstv. iðnaðarráðherra ætlar að staðfesta það að þetta sé raunverulega sá ásetningur sem búi að baki þeim heimildum sem ráðherrann er að kalla eftir og hvort það séu þessar heimildir sem ráðherranum sé nauðsynlegt að hafa til að geta tryggt áframhaldandi stóriðjuuppbyggingu í Norðausturkjördæminu með þeim virkjunarframkvæmdum sem því fylgja og þeim áhrifum á gengi krónunnar og stöðu útflutningsatvinnuveganna og þekkingarfyrirtækjanna, kannski ekki síst hér á suðvesturhorninu eins og við höfum séð undanfarið á CCP, Marel, Flögu og ýmsum öðrum fyrirtækjum sem við höfum haft trú á að yrðu í forustu fyrir íslensku atvinnulífi hér á næstu árum og áratugum og í því að skapa þau atvinnutækifæri framtíðarinnar sem börnin okkar hefðu áhuga á að vinna við. (Iðnrh.: Á móti álverum.) Út af fyrir sig, hæstv. ráðherra, ekki á móti álverum og orkuiðnaði því síður. Spurningin er aðeins um hversu ríkan þátt slíkt eigi að eiga í atvinnuuppbyggingunni, hversu hratt þar eigi að fara, hvort fáist tryggilega nægilegt endurgjald fyrir orkuna, efasemdir um að ríkið eigi að niðurgreiða stóriðjustarfsemi og aðrir slíkir hlutir.

En ólíkt hæstv. ráðherra og ýmsum öðrum sem taka þátt í þessari umræðu eru þetta ekki trúarbrögð fyrir mér, ég er ekki með eða á móti álverum. Það finnst mér satt að segja, með fullri virðingu fyrir hæstv. iðnaðarráðherra, vera ákaflega heimskuleg afstaða að vera í lífi sínu með eða á móti einhverri tiltekinni atvinnustarfsemi. Ég held að sannarlega þurfi að bræða ál í heiminum og einhvers staðar þarf að gera það og hér hefur það verið gert með ágætum árangri, bæði í Straumsvík og hjá Norðuráli, og slík uppbygging upp að vissu marki og með svona hæfilegum hraða getur bara verið jákvæð. Það getur hins vegar verið mjög varasamt fyrir ríkið að hlutast til um með niðurgreiðslum að draga inn miklar fjárfestingar í þessari einu atvinnugrein sem leiðir til mjög erfiðs ástands fyrir aðrar atvinnugreinar sem við bindum kannski nú um stundir meiri vonir við til framtíðar. Ég leyfi mér þess vegna að hafa verulegar efasemdir um að við eigum að fara hratt í þessu, eins og ég leyfi mér að hafa efasemdir um að við eigum að ganga mikið lengra í vatnsaflinu en við höfum þegar gert. Ég held að við eigum að horfa fyrst og fremst til nýtingar á jarðhitanum og síðan til hóflegrar iðjustarfsemi af þessu tagi og ekki í eins gríðarlegum áföngum og við höfum farið í við Kárahnjúka. Eins og hæstv. ráðherra veit var ég í málefnum Kárahnjúkavirkjunar og álversins á Reyðarfirði í minni hluta í mínum flokki og endurspegla þess vegna ekki sjónarmið hans til þeirrar framkvæmdar, en eins og hæstv. ráðherra er kunnugt var ég eini stjórnarmaðurinn af sjö stjórnarmönnum Landsvirkjunar sem greiddi atkvæði gegn þeim samningum á sínum tíma og mér sýnist ljóslega að sú afstaða hafi verið rétt í ljósi framhaldsins.

Það verður sannarlega, virðulegur forseti, ákaflega athyglisvert að heyra svör ráðherrans á eftir. Það sem skiptir sífellt meira máli og ég held að sé óhjákvæmilegt að við gerum að kosningamáli í kosningunum 2007 er að tryggja eignarrétt almennings á auðlindum landsins í jarðvarma og í vatnsafli, tryggja það áður en Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkurinn reyna að einkavæða þær auðlindir líka en ekki eftir á eins og við lentum í með fiskinn í sjónum. Það er nauðsynlegt að tryggja eignarhald almennings á þessum auðlindum og það er sömuleiðis nauðsynlegt að tryggja að almenningur hafi arð og ávöxt af þeirri eign sinni og það komi endurgjald fyrir nýtingu þessara auðlinda. Það er dapurlegt að við höfum verið að spilla auðlindum landsins án þess að fyrir þær kæmi nokkurt endurgjald til almennings, sem er eigandinn, heldur fyrst og fremst bara niðurgreitt rafmagn til stóriðju. Það að tryggja eignarrétt almennings á auðlindunum og eðlilegt endurgjald gæti út af fyrir sig skapað forsendur fyrir því að þetta nýja samkeppnisumhverfi og vaxandi einkarekstur í orkuiðnaðinum gæti verið á heilbrigðum forsendum því að þá væru hagsmunir almennings að mestu tryggðir um eignarhaldið á auðlindinni og eðlilegt afgjald af henni. En með því verklagi sem hæstv. iðnaðarráðherra og nú hv. iðnaðarnefnd standa að á Alþingi er því miður vissulega ástæða til að hafa áhyggjur af því að hér sé ekki nægilega vel að verki staðið.

Einn hluti málsins er að það sem veldur því að menn, sannast sagna, virðulegur forseti, tortryggja mjög framgang hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra í málinu er að við höfum haft í landinu firnagóð lög, vatnalögin frá árinu 1923. Það voru satt að segja miklir völundarsmiðir sem settu saman þau lög, vatnalögin frá 1923, því að þau hafa dugað síðan, í yfir 80 ár, og í samfélagi sem hefur tekið algjörum stakkaskiptum, í atvinnulífi sem er allt, allt annað og í landi sem er allt, allt annað en það land sem þau voru sett í. Þessi lög hafa dugað til að leysa úr helstu álitamálum í einhverjum mikilvægustu hagsmunamálum í landinu, þeim hagsmunamálum sem varða vatnið og alla þá miklu hagsmuni sem því er tengt. Það er sjálfsagt og eðlilegt að endurskoða slíka löggjöf. Þó að hún hafi dugað vel og dugað í gegnum í allar þessar breytingar er kominn tími til að endurskoða þá löggjöf. En það vekur auðvitað ákveðnar efasemdir í hvaða leiðangri menn eru þegar ekki er hægt að gera það með heildstæðum hætti. Það vekur vissulega talsverðar efasemdir. Við erum að fá vatnatilskipun frá Evrópusambandinu sem hér þyrfti að liggja undir, við erum að fara að endurnýja vatnalögin og allt ætti þetta að haldast í hendur, virðulegur forseti. Ekki ættu að koma svona kálfar eða hvað menn vilja kalla þetta og málin slitin í sundur, heldur að hægt væri að sjá þau sem heild og reyna að tryggja samfellu og samhengi í þeim.

Ég tel einfaldlega, virðulegur forseti, að engar forsendur séu fyrir því að veita iðnaðarráðherra þessa heimild til útgáfu á vilyrðunum. Það er ekki flóknara en svo og ég held að ég hafi fært einföld og augljós rök að því að það standi bara í frumvarpinu sjálfu, í bráðabirgðaákvæðinu frá meiri hlutanum sem kveður á um það að setja þurfi reglur um hvernig standa eigi að þessari útgáfu á leyfum. Engu að síður ætlar meiri hlutinn að heimila leyfaútgáfuna áður en reglurnar eru settar og ég skil ekki að nokkur maður skilji svoleiðis verklag, satt að segja.

Ég held, virðulegur forseti, að ég hafi farið yfir meginsjónarmiðin í þessu efni á þessu stigi en ég geymi mér kannski að fara yfir tæknilegri atriði til síðari ræðu minnar við þessa umræðu, en ég held að þetta séu stóru línurnar. Það er þetta sem ég vil kalla orrustuna um orkuauðlindir Íslands sem ég tel að sé hafin, að hér eigi að stíga eitt litla skrefið af þeim mörgu litlu skrefum sem þurfi að stíga til að einkavæða orkuauðlindir Íslands og að hér sé verið að afhenda hæstv. iðnaðarráðherra ákveðið tæki og tól í þeirri vegferð. Mér finnst mikilvægt að einkavæðingarstefna ríkisstjórnarinnar í þessum málefnum liggi alveg skýr og klár fyrir og refjalaust af hálfu ríkisstjórnarinnar. Hér sé ekki uppi neinn feluleikur með hvað verið er að ákveða eða ákvarða og algjörlega nauðsynlegt að hæstv. ráðherra gefi skýra yfirlýsingu um það hvort hér sé í rauninni verið að taka hina pólitísku ákvörðun um að byggja eitt álver í viðbót og það sem allra fyrst.