132. löggjafarþing — 38. fundur,  7. des. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[23:33]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ekki mikil reisn yfir Samfylkingunni í þessu máli, það er óhætt að segja það. Flytur frumvarp á vorþingi og er á móti sama frumvarpi á haustþingi. Þetta er reisnin yfir Samfylkingunni. (Gripið fram í: Það hefur margt breyst.)

Hins vegar er mér efst í huga á þessari stundu að það er eiginlega ekki Samfylkingin sem hefur talað hér í kvöld, það er Alþýðubandalagið og Alþýðubandalagið mun tala áfram hér í nótt, þannig að ég segi bara, hæstv. forseti, (Gripið fram í.) ég hef fulla samúð með hv. formanni Samfylkingarinnar miðað við þau spil sem hún hefur á hendi.

Hv. þingmenn láta eins og hér séu einhver stórtíðindi uppi með þessu frumvarpi. Það vill svo til að í 19. gr. laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu er í dag ákvæði sem heimilar að auglýsa eftir umsóknum um rannsóknarleyfi og nýtingarleyfi í jarðvarma. Nú er reyndar verið að taka vatnsaflið inn í það en það er eins og þetta sé einhver gríðarleg breyting og svo kemur stjórnarmaður í Landsvirkjun, hv. þm. Helgi Hjörvar, og þvílík ræða. Ég skal segja það, hæstv. forseti, að ég hélt einhvern tíma, ekki fyrir óskaplega mörgum mánuðum, að hugsanlega væri hægt að vinna með þessum flokki, Samfylkingunni. En þetta Alþýðubandalag sem hefur birst í kvöld í umræðunni, nei, takk.