132. löggjafarþing — 38. fundur,  7. des. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[23:35]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekki nema gott eitt um það að segja að hæstv. ráðherra bendi á að ýmsir atkvæðamiklir þingmenn hafa fyrr á árunum dvalið í Alþýðubandalaginu, eins og raunar flokksfélagi hæstv. ráðherra, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson gerði með okkur og við vitum nú hversu vel hæstv. ráðherra lyndir við hann og aðra sem úr þeim flokki koma. En við erum út af fyrir sig alveg jafnstoltir af þeirri fortíð okkar fyrir því. En þá er kannski ástæða til að spyrja hvort hér í andsvari hafi ekki talað fulltrúi Sjálfstæðisflokksins því að hæstv. iðnaðarráðherra virðist vera kappsamari um einkavæðingu en nokkur af ráðherrum Sjálfstæðisflokksins og jafnvel þeir allir samanlagt og gengur ákaflega hart fram í því að hægrivæða samfélagið. Í verkum ráðherrans er ákaflega lítið að sjá af þeim stefnumálum sem eitt sinn voru á miðju íslenskra stjórnmála.

En ég spurði hæstv. ráðherra, vona ég, málefnalegra og efnislegra spurninga. Hvaða virkjunarleyfi þarf ráðherrann nauðsynlega að veita nú í vatnsafli, án þess að neinar reglur séu fyrir hendi og er hér í raun og veru verið að taka ákvörðun um að byggja stóra álverið norður á Húsavík í þessu laumufrumvarpi ráðherrans? Ef svarið er nei þá nær það ekki lengra en það væri ágætt ef hæstv. ráðherra gæti svarað þeim spurningum sem til hennar er beint.