132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Ástand íslenska þorskstofnsins og veiðihorfur.

[13:30]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Arfavitlaus nýtingarstefna fiskstofna á Íslandsmiðum undanfarinn aldarfjórðung er nú að koma okkur Íslendingum í koll. Þorskstofninn, okkar verðmætasta auðlind sem skapað hefur svo mikla atvinnu og auðlegð fyrir fólkið í landinu, hefur orðið fyrir miklum skaða. Fyrir atbeina misviturra manna og oft litla þekkingu stjórnmálamanna hafa menn nýtt fiskimiðin með þeim afleiðingum að þorskstofninn þrífst orðið mjög illa. Vísbendingarnar um það eru alls staðar sjáanlegar.

Hér má telja þær upp í stuttu máli en tíminn leyfir því miður ekki lengri fyrirlestur þó svo að hægt væri að halda mjög langa ræðu um þessa hluti.

Í fyrsta lagi, aldur þorsksins þegar hann verður kynþroska hefur farið lækkandi. Á 9. áratugnum var þorskurinn á bilinu 6–7 ára gamall þegar um það bil helmingur hvers árgangs varð kynþroska og hrundi í fyrsta sinn. Síðustu 10 árin hafa fiskarnir verið á bilinu 5–6 ára þegar um það bil helmingur hvers árgangs hefur orðið kynþroska. Athugum það að kynþroskaaldurinn hjá stórum hluta af yngri fiski hefur líka farið lækkandi þannig að hér horfum við upp á mjög alvarlega hluti, virðulegi forseti. Þetta skiptir mjög miklu máli fyrir afrakstur fiskstofns eins og þorsksins. Hjá öllum lífverum fer gríðarleg næring og orka í að fjölga sér sem annars hefði nýst í vöxt. Með öðrum orðum dregur þetta úr vaxtarmöguleikum fiska þegar þeir verða kynþroska og þetta bitnar að sjálfsögðu á afrakstursgetu stofnsins.

Fiskveiðar snúast um peninga og að sjálfsögðu fáum við greitt fyrir hvert kíló sem við náum að veiða og landa úr stofninum. Ótímabær kynþroski getur valdið mjög miklu efnahagstjóni. Margt bendir til að smáþorskur sem er að hrygna í fyrsta skipti skili litlu af sér í formi seiða sem geta aukið nýliðun í stofninum. Það er því alger sóun þegar svona fiskur hrygnir.

Auk þess má leiða líkum að því að töluvert af þeim fiski sem hrygnir drepst eftir það þar sem allt hrygningarferlið veldur svo miklu álagi á fiskinn. Í ofanálag við lélegan vöxt fáum við ótímabær afföll úr heilu árgöngunum. Fiskurinn drepst, hann hverfur, hann týnist.

Lítum þá á annað, holdafar þorsksins. Það hefur versnað ískyggilega á undanförnum árum. Meðalþyngd 4–8 ára þorsks eftir aldri í afla lækkaði að meðaltali um 13% á árunum 2002 til 2004. Hjá 9–10 ára þorski erum við að tala um lækkun upp á heil 20% og þetta er ekkert smáræði hjá svona dýrastofni.

Svipað er upp á teningnum þegar vegin er meðalþyngd þorsks sem veiðist í svokölluðum stofnmælingum eða togararöllum sem fara fram í mars á hverju ári. Þar er niðurstaðan lækkun meðalþyngdar frá árinu 2002. Þegar við lítum svo á stofnmælingar á hausti sem eru togararöll sem eru framkvæmd í október var meðalþyngdin hjá flestum aldursflokkum sú lægsta frá því að farið var að stunda þessar haustmælingar árið 1996.

Rannsóknir Hafrannsóknastofnunar sýna að þorskinn vantar víða æti. Þetta er allt saman hægt að lesa í þessari skýrslu hér, ástandsskýrslu Hafrannsóknastofnunar, sem kemur út í júní á hverju ári. Þessar rannsóknir sýna að þorskinn vantar æti. Hér erum við kannski einkum að tala um loðnu en líka eins og segir orðrétt í nýjustu ástandsskýrslu Hafrannsóknastofnunar, þessari skýrslu hér, með leyfi forseta:

„Fæðusýni úr stofnmælingu botnfiska í mars sýna að lítið hafi verið af loðnu í þorskmögum mörg undanfarin ár, og árin 2003–2005 það minnsta síðan athuganir hófust.“

Þegar maður les áfram í þessari skýrslu kemur í ljós að það er ekki nóg með að þorskinn vanti loðnu, hann vantar líka annað æti. Fiskifræðingar sýna að fæðuathuganir sýni, og enn og aftur vitna ég orðrétt í þessa skýrslu, með leyfi forseta, „að heildarfæðumagn í einstökum þorskmögum hafi minnkað á undanförnum árum. Þorskurinn virðist því ekki ná að bæta upp minnkandi loðnu með annarri fæðu“.

Hér loga allir mælar á rauðu. Þeir hafa gert það mjög lengi og það er eins og mönnum sé alveg nákvæmlega sama um það í ríkisstjórninni. Ég hef því óskað eftir þessari umræðu til að spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra hvernig hann sjái nú framtíðarhorfur þorskstofnsins, hvernig hann sjái framtíðarhorfur varðandi stærð hans, afrakstursgetu og síðast en ekki síst horfur varðandi afla á næstu árum.