132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Ástand íslenska þorskstofnsins og veiðihorfur.

[13:36]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka fyrir þessa umræðu. Ég tel að það sé aldrei ofgert að við ræðum þau mál sem snúa að vexti og viðgangi þorskstofnsins. Þetta er auðvitað okkar langmikilvægasti nytjastofn og þess vegna er alltaf ástæða til að við ræðum þau mál.

Hv. þingmaður spurði mig í lokin hvernig ég sæi framtíðarhorfur og stöðuna varðandi þorskinn. Það er auðvitað rétt, og ég tek alveg undir það, að okkur hefur alls ekki tekist eins og við ætluðum okkur við uppbyggingu þorskstofnsins. Það er ákveðið áhyggjuefni. Ég held hins vegar að við eigum ekki að draga upp þá mynd að sú skýrsla sem hv. þingmaður vitnaði til, ástandsskýrsla Hafrannsóknastofnunar, sé svört. Ég tel að ekki sé hægt að gera það. Þegar við horfum á þessa skýrslu og þær umræður sem hafa sprottið af henni hefur mér stundum fundist sú umræða vera dregin um of í of sterkum og dökkum litum. Þegar við förum yfir skýrsluna er það ekki að mínu mati tilefni til þess að vera með einhverja heimsendaspádóma, alls ekki. Menn drógu að vísu þá ályktun að sumu leyti af umræðum sem fram fóru um daginn á ráðstefnu sem Hafrannsóknastofnun efndi til en að mínu mati var ekki neitt tilefni til þess.

Það er alveg rétt að meðalþyngd í þorski hefur lækkað á milli ára frá 2002 til 2004 um 13% og meira hjá stærri þorskinum. Það er auðvitað vegna þess, eins og hv. þingmaður nefndi, að það er minna aðgengi þorsksins að loðnu á sínu hefðbundna svæði og það er auðvitað hlutur sem við hljótum að horfa sérstaklega til.

Þetta mál er hins vegar býsna flókið. Við stöndum einmitt þessa dagana í því að leita að loðnu og átta okkur á stærð stofnsins. Það hefur því miður ekki tekist að mæla loðnustofninn þó að menn hafi orðið varir við loðnu úti fyrir Norðurlandinu sem er út af fyrir sig ágætisvísbending. Það er líka rétt að holdafar hefur rýrnað á tilteknu tímabili en það er hins vegar ánægjulegt að á þessu ári batnaði holdafar þorsksins frá árinu 2004. Ef við skoðum stofnvísitölu þorsksins er hún 50% hærri núna en hún var árið 2001, og svipuð og við upphaf síðasta áratugar. Sama er ef við skoðum vísitölu þorsks í stofnmælingunni haustið 2004, þá er hún sú hæsta núna frá árinu 1996 þegar mælingar hófust. Ef við skoðum enn þá fleiri tölur úr þessari skýrslu um nytjastofna sjávar þar sem fjallað er sérstaklega um þorskinn kemur sömuleiðis fram að viðmiðunarstofninn hafi stækkað úr 600 þús. tonnum í 854 þús. tonn frá árinu 2004 til 2005. Lélegi árgangurinn sem við þekkjum frá árinu 2001 skýrir hins vegar það að stofninn fer á næsta ári niður í 823 þús. tonn.

Það sem er hins vegar sérstakt áhyggjuefni, og er mál sem ég tel að við eigum að ræða einkanlega í þessu sambandi, er staðan varðandi stærsta þorskinn. Það er tvímælalaust ástæða til að hafa verulegar áhyggjur af henni. Það er alveg ljóst mál að við höfum gengið allt of nærri stærsta fiskinum, elstu árgöngunum, og við erum í þeirri stöðu núna að sá hluti þorskstofnsins er í sögulegu lágmarki. Það er það mál sem að mínu mati er mjög brýnt að við horfum á. Við höfum tekið á því en það hefur hins vegar valdið deilum vegna þess að það kemur auðvitað heilmikið við á svæðum sem við mörg hver þekkjum vel. Við höfum gert það með því að breyta reglum um hámarksmöskvastærð sem hefur hins vegar haft þau áhrif að við reynum að vernda stærsta þorskinn sem er okkur mjög mikilvægt varðandi hrygninguna.

Hrygningarstofninn er auðvitað mjög mikilvægur í þessu sambandi. Það er alveg ljóst mál að þegar þorskurinn er í þeirri stærð sem hann er í í dag skiptir stærð hrygningarstofnsins máli. Það er alveg augljóst mál og hefur margoft komið fram. Það kemur líka fram í þessari ástandsskýrslu Hafrannsóknastofnunar að hrygningarstofninn hefur stækkað umtalsvert. Hann er ekki mjög stór í sögulegu samhengi þannig lagað séð en engu að síður er það ljóst að hann hefur stækkað. Hann er 260 þús. tonn núna og hefur ekki verið stærri frá árinu 1981.

Það er mat Hafrannsóknastofnunar sem svarar að einhverju leyti spurningu hv. þingmanns að ekki verði mikil breyting við óbreytta sókn. Ég hef lýst því yfir að ég hyggist ekki breyta aflareglunni. Hún er núna 25% og ég hyggst ekki breyta því.

Staða loðnunnar og spurningar varðandi hana eru auðvitað grundvallaratriði sem snúa að þessu. Ég tel að ekki eigi að banna loðnuveiðar, ég tel að ekki eigi að banna sumarloðnuveiðar. Við eigum að ganga hins vegar þar fram af miklu hófi. Við eigum að reyna að gæta þess að sumarloðnuveiðarnar séu ekki miklar. Því miður hefur ekki verið ástæða til að grípa þar inn í því að það voru engar sumarloðnuveiðar á þessu ári. Það veiddist engin sumarloðna. Við höfum skilið eftir meiri loðnu í sjónum en fiskifræðingar hafa lagt til og talið ráðlegt. Við höfum skilið eftir 30% meira. Það sem er hins vegar sérstakt áhyggjuefni eru þessar miklu flottrollsveiðar og ég vil segja að ég tel að það komi til greina að breyta veiðisvæðum þar sem flottrollsveiðar á loðnu eru leyfilegar. Um það er hins vegar ekki tímabært að taka ákvörðun á þessari stundu vegna þess að núna erum við að reyna að mæla loðnustofninn (Forseti hringir.) og við vitum ekki nákvæmlega hvernig staðið verður að loðnuveiðunum. Þetta er hlutur sem ég held að muni skipta okkur miklu máli, hlutur sem ég hef horft sérstaklega til og ætla að beita mér fyrir.