132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Ástand íslenska þorskstofnsins og veiðihorfur.

[13:41]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Það er full ástæða fyrir okkur öll til að ræða ástand þorskstofnsins eins og það er í dag. Við hljótum að viðurkenna að frá því að kvótakerfið var tekið upp og takmarkanir hófust á veiðum hefur okkur algjörlega mistekist að byggja upp þennan stærsta nytjastofn á Íslandsmiðum. Í raun getum við sagt að það að reyna að byggja upp þorskstofninn sé mistakasaga í 20 ár. Auðvitað reynir hæstv. sjávarútvegsráðherra að bera sig vel þegar hann svarar fyrir þetta en tölurnar tala sínu máli og við sjáum nákvæmlega hvernig ástandið er.

Kvótakerfið hefur gert það að verkum að sóknin hefur breyst, hefur beinst í stærsta og verðmesta fiskinn sem eðlilegt er þegar takmörkun er fyrir hendi. Það eru orðnar mjög sterkar vísbendingar um að þessi sókn sem velur einstaklinga úr stofninum sé farin að hafa víðtæk og varanleg áhrif á stofninn. Samt sem áður halda Hafrannsóknastofnun og hæstv. ráðherra sig við kenningar um að það sé ákveðið og beint samband á milli stærðar hrygningarstofns og nýliðunar á hverju ári þó að mjög erfitt virðist vera að benda á að tölfræði geti stutt þá kenningu.

Við vitum öll að fiskifræðin er ekki nákvæmnisvísindi. Það er að mörgu að hyggja og þegar við horfum upp á mistakasögu í 20 ár verður að segjast eins og er að það er undarlegt að við ætlum samt sem áður að halda okkur við sömu kenningar, við ætlum samt sem áður að halda okkur við sömu aðferðir ár eftir ár þó að ekkert gangi og árangurinn sé hörmulegur.

Fyrstu mánuðir nýs hæstv. sjávarútvegsráðherra í embætti koma til með að gefa okkur vísbendingar um hvort hann muni reyna að hafa áhrif til að breyta þessu. Við bíðum eftir þeim vísbendingum.