132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Ástand íslenska þorskstofnsins og veiðihorfur.

[13:43]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Vissulega hefur árangurinn af uppbyggingu þorskstofnsins síðustu 20 ár verið vonbrigði. Því er ekki að neita. Hitt er líka rétt að benda á að vandinn virðist ekki liggja í klakinu eða seiðunum því að mjög mörg undanfarin ár hafa verið mjög góðir árgangar í þeim efnum. Það virðist sem vandinn liggi á stiginu frá seiði til fisks sem gengur á stofninn meira en menn ætla. En hvað ber að gera? Ég vil nefna fáein atriði sem ég legg til að menn taki til athugunar í núverandi stöðu.

Í fyrsta lagi er rétt að ákvarða meira en nú er stýringu veiðanna í gegnum veiðarfæri. Það þarf að takmarka notkun ákveðinna veiðarfæra á ákveðnum svæðum, á ákveðnum tegundum o.s.frv. í meira mæli en við höfum gert. Við þurfum að taka á því stærðarvali sem leiðir af framsali veiðiheimilda sem hefur leitt af sér mjög þunga sókn á stóran fisk. Við þurfum líka að vernda eða loka eða takmarka veiðar á ákveðnum svæðum í ríkari mæli en við höfum gert.

Í öðru lagi þurfum við að beita meiri stýringu í veiðar á fæðu þorsksins en verið hefur. Ráðherra tók hér undir hugmyndir um að skoða betur veiðar á loðnu sem mörgum hefur verið þyrnir í auga á undanförnum árum.

Í þriðja lagi tel ég að menn eigi að taka mið af þeirri staðreynd sem æ betur er að koma í ljós, að þorskstofninn er ekki einn stofn heldur margir stofnar. Það þarf að skipta veiðiálaginu á einstaka stofna, reyna að dreifa því eftir stærð þeirra og styrkleika. Þetta er það sem ég held að við ættum að gera í þeirri stöðu sem við erum í um þessar mundir.