132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Ástand íslenska þorskstofnsins og veiðihorfur.

[13:55]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Virðulegur upphafsmaður þessarar umræðu hóf mál sitt á því að segja að í raun væri lítt að marka þá sem fjölluðu um og tjáðu sig um þorskveiðar og horfur í þeim efnum en hóf síðan að deila úr djúpum viskubrunni sínum, rétt eins og Messías þorskfræðanna. Staðreyndin er einfaldlega sú að við vitum afskaplega lítið um þessi mál. Sannarlega hefur gengið hægt að byggja upp þorskstofninn hér síðustu 20 árin en þá skulu menn ekki gleyma því hvert ástand hans var fyrir 22 og 25 árum en það má þó segja að það hafi gengið skár hér en víðast annars staðar við Norður-Atlantshaf.

Óvissustofnar, óvissuþættir í þessum fræðum, eru sannarlega miklir enda flókið kerfi sem verið er að fjalla um. Hvaða áhrif hefur breytt hitastig á hegðan og mynstur þorsksins, breytt seltustig, hvað um þann þorsk sem er sagður liggja á 1.000–1.500 metra dýpi, grænlenska stofninn, hvað með áhrif breytts göngumynsturs loðnunnar á veiðihorfur í þorski eða hvaða áhrif hafa miklar veiðar á loðnustofni á þorskinn? Hvað með sandsíli? Þannig má áfram telja. Að ekki sé minnst á blessaðan hvalinn, hver eru áhrif hans á þorskstofninn?

Við erum hér í rauninni að fjalla um afar flókið og mikið lífríki, og hver er niðurstaðan? Niðurstaðan er í rauninni sú að við vitum afskaplega lítið um einstaka þætti þessa lífríkis, hvað þá ef kemur að samspili þeirra. Hvert er þá svarið og hver eru eðlileg viðbrögð okkar? Það er að sjálfsögðu að rannsaka, og rannsaka meira, bæði af vísindamönnum, með sjómönnum og þar fram eftir götunum. Meðan þær rannsóknir standa yfir hlýtur blessaður þorskurinn að njóta vafans.