132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Ástand íslenska þorskstofnsins og veiðihorfur.

[13:57]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hér ræðum við um stöðu þorsksins og þorskstofnanna og það er í sjálfu sér fyllilega tilefni til. Þorskveiðarnar og vinnsla á þorski eru meðal undirstöðuatvinnugreina þjóðarinnar, hafa verið og verða áfram.

Það er mjög mikilvægt, og við höfum lagt áherslu á það í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, að veiðarnar séu stundaðar á sjálfbæran hátt, vistvænan hátt, og við gjöldum varhuga við því ef við vitum ekki hvaða áhrif þær hafa, t.d. hin ýmsu veiðarfæri. Rannsóknir á veiðarfærum og áhrifum þeirra hafa verið allt of takmarkaðar hér en vonir standa til að þær verði auknar.

Það sem mér finnst koma athyglisvert fram hjá Hafrannsóknastofnun er að nú er viðurkennt að þorskurinn í kringum landið er samsettur af allmörgum hrygningarstofnum, jafnvel staðbundnum. Það hefur líka áhrif á hvaða fiskveiðistjórnarkerfi við byggjum upp því að það kerfi sem við höfum nú búið við, kvótakerfið, hefur gert ráð fyrir því að þorskurinn sé einn stofn og fari nánast fyrirstöðulaust kringum landið og megi veiða hann hvar sem er. En nú, þegar búið er að viðurkenna að þorskurinn er kannski fjölstofnahópur — þetta var reyndar þekkt meðal ferskvatnsfiska, við þekkjum þetta meðal bleikjunnar, meðal laxfiska — er líka ástæða til að kanna hvort ekki eigi að fara að gefa út staðbundnar veiðiheimildir þannig að hægt sé að stokka upp þetta allsherjarkvótakerfi sem byggt hefur verið upp. Mér finnst að forsendur fyrir því séu í sjálfu sér orðnar mjög veikar en staðbundin fiskveiðistjórn og (Forseti hringir.) fiskveiðiheimildir séu það sem eigi að huga að, frú forseti.