132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Ástand íslenska þorskstofnsins og veiðihorfur.

[14:00]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Hjálmar Árnason sagði að ég hefði ausið úr viskubrunni mínum. Það er ekki alveg rétt. Það er nú svo að hv. þm. Hjálmar Árnason verður seint sakaður um að vera bjartasta ljósaperan í annars frekar fátæklegri jólaseríu Framsóknarflokksins þegar þingmenn eru annars vegar. En ég get alla vega upplýst hann um það, svo hann verði aðeins vitrari fyrir vikið, að ég var að lesa upp úr upplýsingum, tölur úr skýrslu Hafrannsóknastofnunar. Þetta er sú viska sem er fyrir hendi á Skúlagötu 4 og mér datt í hug að nota hana sem grundvöll fyrir þessa umræðu. Þetta eru þær staðreyndir sem stjórnvöld á öðrum tímum segjast styðjast við þegar um fiskveiðistjórn er að ræða.

Nú koma menn hér upp og segja að þetta séu svo ófullkomin vísindi að við vitum ekki neitt og þá spyr ég aftur: Hvar erum við eiginlega stödd? Ég tel að við séum á mjög alvarlegum refilstigum og kannski vitum við ekki hvar við erum stödd. Það kom vel fram í svari hæstv. sjávarútvegsráðherra sem svaraði í raun og veru í engu spurningum mínum um horfur varðandi þorskstofninn. Hann óð úr einu í annað en fátt af því var bitastætt.

Ég tel augljóst hvað þarf að gera. Við þurfum að ná upp fallþunganum hjá þorskinum. Við þurfum að auka framboð á æti á grunnslóðinni. Það gerum við með því að draga markvisst úr loðnuveiðunum, ganga hiklaust þar til verks. Þetta er einfalt mál. Formaður sjávarútvegsnefndar flissar í sæti sínu. Þetta er mjög alvarlegt mál, hv. þm. Guðjón Hjörleifsson. Við eigum ekki að hlæja að þessu. Fólkið í þínum heimabæ, Vestmannaeyjum, á allt undir því að okkur takist að byggja upp þennan þorskstofn. Það hefur okkur mistekist á 20 árum.

Það var talað um það hvernig ástandið hefði verið þegar við byrjuðum? Ég fór yfir það. Það stendur í skýrslunni. Þá var veiðistofninn rétt um milljón tonn, núna 700 þúsund tonn. Svo sitja menn hér og hlæja.