132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Ummæli í utandagskrárumræðu.

[14:05]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Hér fór fram umræða utan dagskrár um ástand þorskstofnsins. Út af fyrir sig var sú umræða mjög fróðleg og málshefjandi hafði mikið til málanna að leggja enda fiskifræðingur og vel heima í þeim efnum. Hins vegar fannst mér hv. málshefjandi í síðari ræðu sinni viðhafa ummæli sem að mínu mati eiga ekki heima í þingsölum. Hann vék á niðrandi hátt — ekki að málflutningi þingmanna Framsóknarflokksins heldur að skoðunum sínum á vitsmunum þeirra og gáfnafari. Ég verð að segja, virðulegur forseti, að mér finnst alveg óþarfi að menn heyi pólitíska umræðu á þessum nótum. Ég vil mælast til þess af hæstv. forseta að hann ræði þetta við hv. þingmann og leitist við að færa hina pólitísku umræðu í þingsölum í málefnalegan farveg.