132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

327. mál
[14:37]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Mig langaði að gera hér litla fyrirspurn og hún er þess eðlis að ég vil vera viss um að ég hafi skilið það rétt að þetta sé þriðja leiðin til innheimtu olíugjalds. Ef þetta frumvarp verður að lögum er þá farin þriðja leiðin til innheimtu olíugjalds? Þá vil ég jafnframt spyrja: Var sú leið athuguð hvort ekki mætti leggja eitt gjald á alla dísilolíu sem notuð er á landi, eitt gjald líkt og gert er í bensíninu?

Mig langaði jafnframt að kanna hvort menn hefðu reynt að skoða þann kostnað sem hlýst af eftirlitskerfinu sem verður ef þetta frumvarp verður að lögum. Hver verður sá kostnaður í raun ef þetta frumvarp verður að lögum?