132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

327. mál
[16:05]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Málið eins og það hefur þróast frá því að það var samþykkt í efnahags- og viðskiptanefnd fyrir líklega tveimur árum sýnir það að þau varnaðarorð sem við fluttum þá, þingmenn Samfylkingarinnar, áttu rétt á sér. Vitlaust var kerfið fyrir en vitlausara og erfiðara er það orðið núna. Mig langar að rifja það upp fyrir hv. þm. Pétri H. Blöndal að hann var löngum á móti því kerfi sem nú er við lýði. Við unnum þann vetur allan að því að breyta því en hver er ástæðan fyrir því að við búum við þetta kerfi í dag? Jú, hv. þingmaður, hinn sjálfstæði formaður efnahags- og viðskiptanefndar, fékk hringingu frá hæstv. fjármálaráðherra og var ekkert að fela það fyrir nefndarmönnum sínum. Það var bara skipun frá fjármálaráðuneytinu að hafa þetta svona. Allt sem við sögðum um vitleysuna í málinu hefur komið fram og enginn ber meiri ábyrgð á því en hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar nema ef vera skyldi hæstv. fyrrv. fjármálaráðherra.

Ég kem þó aðallega hér upp til þess að minna á að við þingmenn Samfylkingarinnar lögðum til að tekin yrði upp sjálfvirk skráning. Hv. þm. Pétur H. Blöndal kemur hér enn einu sinni og mælir gegn því vegna þess að hann telur að það sé brot á persónuverndarlögum eða brot á persónuhelgi. Ég fæ það ekki skilið, frú forseti. Að vísu er rétt að samkvæmt því kerfi yrði sú vegalengd sem farartæki ækju skráð en það hlýtur að vera mjög auðvelt að koma í veg fyrir að það yrði skráð hvert viðkomandi farartæki færu og hvar þau væru stödd. Ef menn vilja ekki slíkar upplýsingar er hægurinn að koma í veg fyrir það.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki þeirrar skoðunar að hægt sé að búa svo um hnúta að þetta verði ekki sá ásteytingarsteinn sem það var allavega á sínum tíma millum þingmanna Samfylkingarinnar og sumra þingmanna Sjálfstæðisflokksins því ég tel að þetta sé framtíðin og þetta sé mjög gott kerfi.