132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

327. mál
[16:25]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ber fyllstu virðingu fyrir þeim viðhorfum sem hv. þm. Pétur H. Blöndal og Ögmundur Jónasson hafa sett hér fram varðandi persónuhelgi og nauðsyn þess að koma í veg fyrir að of miklum upplýsingum sé safnað um einkahagi manna. En nú verð ég hins vegar að segja að hv. þm. Ögmundur Jónasson, sem yfirleitt er vel að sér um flesta hluti, hefur ekki kynnt sér þessa tækni nægilega vel. Það er hægt að gera hana þannig úr garði að það sé ekki fylgst með því hvar menn eru staddir heldur einungis vegalengdinni sem þeir aka og leggja að baki og tíma sólarhringsins sem þeir eru í akstri. Það eru þær upplýsingar sem þarf að fá, engar aðrar. Hv. þingmaður ætti auðvitað að gera sér grein fyrir því að því miður er það svo að hægt er að fylgjast með ferðum hans sjálfs eftir alls konar leiðum. Starfs síns vegna notar hv. þingmaður farsíma töluvert mikið og er jafnan hægt að fylgjast með því hvort hann er staddur í austurbænum eða vesturbænum eða hvar á landinu hann er staddur og það er hægt að skrá ferðir hans þannig. Einnig er hægt að afla mikilla upplýsinga um hvað hann gerir og hvers hann neytir með því einu að skoða færslur á bankakortum — sem til skamms tíma var furðugáleysislega farið með af allra hálfu þó að á því hafi verið gerð bragarbót.

En ég kem hér einungis til þess að undirstrika það að tæknin, sem hv. þingmaður tók undir að væri jákvæð, er þannig úr garði gerð að hún girðir fyrir þá vankanta sem hv. þingmaður nefndi hér gegn málinu. Ég held því að það sé hægt að nota þessa ökurita í allar bifreiðir og ég held að það sé hægt að gera þá þannig úr garði að ekki sé hægt að fylgjast með því hvert menn eru að fara. Það er hins vegar hægt eftir margvíslegum öðrum leiðum í dag.