132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[16:34]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 2. minni hluta fjárlaganefndar um frumvarp til laga um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

Það verður að segjast eins og er að nefndin hefur í raun ekki fjallað um þetta frumvarp sem lýtur að ráðstöfun á þeim fjármunum sem fengust við einkavæðingu Símans. Eins og kunnugt er hefur nefndin fjallað miklu meira um aðrar einkavæðingar á yfirstandandi ári en það voru einkavæðingar bankanna. Ég held að segja megi að sú ítarlega og gagnrýna umfjöllun sem fram fór um það hvernig staðið var að einkavæðingu bankanna hafi sem betur fer verið hæfilegt aðhald með framkvæmdinni á einkavæðingu Símans og hafi með öðru orðið til þess að mun betur var að henni staðið en sölu bankanna á sinni tíð. Það er út af fyrir sig fagnaðarefni hversu fjárlaganefnd tók fast á þeim málum hér á vor- og sumarmánuðum.

Hér er í sjálfu sér ekki um að ræða lagafrumvarp í neinum þeim skilningi sem við leggjum venjulega í það orð. Hér er um að ræða viljayfirlýsingar sitjandi ríkisstjórnar um það hvernig ráðstafa eigi þessum fjármunum í framtíðinni og hefði trúlega verið miklu nær að hafa um það þingsályktunartillögu um áætlun manna um framkvæmdir á þessum sviðum, eins og venja er til með samgönguáætlun til að mynda og aðrar slíkar áætlanir, m.a. um skógrækt, sem hafa verið samþykktar í þinginu. En lagagildi þessa frumvarps er auðvitað svona og svona því ef nýr þingmeirihluti á Alþingi árið 2007 kýs að haga hlutunum með eitthvað öðrum hætti í fjárlögum fyrir 2008 en tekið er fram í þessu lagafrumvarpi þá standa þau fjárlög auðvitað hærra og taka þessum lögum fram. Þessi lög eru því ekki annað en viljayfirlýsing þeirra sem nú sitja á þingi um það hvernig ráðstafa eigi einhverjum peningum í framtíðinni og nýr meiri hluti hér árið 2007 er algjörlega óbundinn af ákvæðum þessara laga nema þá að þeim fylgi einhverjar aðrar skuldbindingar í einstökum tilfellum, t.d. með samningum sem gerðir verða í framhaldinu o.s.frv. En fjárveitingavaldið er þingsins á hverjum tíma og fjárlögin á endanum þau lög sem ráða.

Við í Samfylkingunni getum út af fyrir sig tekið undir ýmis af þeim ágætu verkefnum sem hér um ræðir. Við minnum á að stærstum hluta þessara fjármuna á að verja til Landspítala – háskólasjúkrahúss og það var einmitt hv. þm. Kristján L. Möller sem ásamt fleiri þingmönnum Samfylkingarinnar flutti um það þingsályktunartillögu og hreyfði þeirri hugmynd fyrstur að hluti af söluandvirði Símans yrði notaður til að byggja nýtt hátæknisjúkrahús og það er vel að sjá það verk nú hafið að tillögu þingmannsins.

Ég hafði hins vegar vegna ákvæða í greinargerð með frumvarpinu óskað eftir því að hæstv. forsætisráðherra yrði viðstaddur umræðuna og ég vil þakka honum fyrir að vera það. Það er vegna málefna Sundabrautarinnar, en í greinargerð með frumvarpinu segir að þeir milljarðar sem ætlaðir eru í lagningu Sundabrautarinnar miðist við að farið verði innri leiðina. Nú eru komin fram viðbrögð íbúa, bæði í Grafarvogs- og Laugardalshverfum í Reykjavík, við lagningu Sundabrautar á innri leið og það er skylt samkvæmt þeim skipulagslögum sem við höfum sett á Alþingi að hafa samráð við íbúana um lagningu brautarinnar.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. forsætisráðherra og óska eftir því að hann svari því hér í andsvari við ræðu mína hvort hér sé verið að skilyrða fjárveitinguna innri leiðinni eða hvort enn sé opið að fara aðrar leiðir með Sundabrautina samkvæmt frumvarpi þessu. Ég tel að það sé mjög mikilvægt, sérstaklega eftir samhljóða ályktun borgarráðs Reykjavíkur, meiri og minni hluta, að hér séu tekin af öll tvímæli af hálfu ríkisstjórnarinnar og forustumanns hennar og þingmanns Reykv. n., sem bæði þessi íbúðahverfi eru raunar í, um að íbúarnir fái að hafa eitthvað um skipulagsmál í sínum eigin hverfum að segja og að ekki sé búið að ákveða það áður en samráðsferlið hefst að fjármunir þessir séu algjörlega bundnir einni leið fremur en annarri. Ég treysti því að hæstv. forsætisráðherra taki af tvímæli um hvernig þetta skuli skiljast í greinargerð frumvarpsins sem hér er til afgreiðslu.