132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[16:55]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hér er um að ræða svo mikilvæga framkvæmd að það er ekki hægt annað en taka undir með hæstv. forsætisráðherra að vonandi skapist sem breiðust samstaða um bæði tímasetningar og aðferðir. Ég hef fyrir mitt leyti ekkert á móti einkaframkvæmd og ef í ljós kemur að hún er heppileg til að flýta þessu get ég fallist á þá aðferð. Ég hef hins vegar áður sagt við hæstv. forsætisráðherra og endurtek það hér að ég er allsendis á móti því að tekið verði upp veggjald. Ég er einfaldlega á móti því. En meiri hlutinn ræður og ef það verður niðurstaðan mun ég þegar að því kemur mótmæla henni og ekki fylgja þeirri ákvörðun. Ég tel hins vegar óþarft að menn leggist í einhverjar langvinnar deilur sem verði til að seinka framkvæmd af þeim sökum.

Ég skil tvímælalaust hæstv. forsætisráðherra þannig að í ræðu sinni áðan hafi hann verið að lýsa því yfir að fjárveitingin af Símapeningunum til Sundabrautar sé ekki í reynd háð því að ein tiltekin leið verði farin. Það er nauðsynlegt að ítreka þetta. Fram kom hjá einum hæstv. ráðherra Sjálfstæðisflokksins við fyrri umræðu málsins og reyndar áður og við fleiri tækifæri, að fjárveitingin væri háð því að svokölluð innri leið yrði farin. Í greinargerð er sagt að tekið sé mið af því en hæstv. forsætisráðherra hefur skýrt mjög ítarlega af hverju það orðalag er. Það er einungis vegna þess að það var sú tillaga sem þá var uppi á borðum Vegagerðarinnar. Ég fagna því að hæstv. forsætisráðherra hefur sagt það hér alveg tvímælalaust að fjárveiting til Sundabrautar sé ekki háð því að ein tiltekin leið verði farin. Ég held að það sé mjög jákvætt af hæstv. forsætisráðherra og fagna þeim ummælum hans.