132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[17:40]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Það þarf út af fyrir sig ekki að bæta miklu við þá umræðu sem hér hefur farið fram. Það eru þó nokkur atriði sem ég vildi minnast á í framhaldi af þeirri vinnu — eða kannski réttara sagt, frú forseti, þeirri litlu vinnu — sem fram fór í fjárlaganefnd varðandi þetta frumvarp. Það var hluti af röksemdunum fyrir því að þetta var lagt fram í lagaformi að ítarleg umræða þyrfti að fara fram um innihald þessa frumvarps til laga um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf. Það hefur áður komið fram að við teljum mörg að eðlilegra hefði verið að flytja málið sem þingsályktunartillögu en ekki sem lög. Fjárlaganefnd fékk í heimsókn fulltrúa úr forsætisráðuneytinu og m.a. kom fram að menn teldu að lagaformið væri traustara en þingsályktunartillaga — þau orð segja okkur ýmislegt um sjálfsmat ríkisstjórnarinnar. Hér hafa verið samþykktar þingsályktunartillögur sem ríkisstjórnin hefur umgengist með þeim hætti að hún telur að hlutirnir komist frekar í verk ef þeir eru bundnir í lög. Út af fyrir sig er ekki hægt að gagnrýna það í sjálfu sér ef þetta er álit hæstv. ríkisstjórnar á eigin verkum. En það er augljóst að samkvæmt hefðinni á þetta miklu betur heima í þingsályktun eins og bent hefur verið á hér í umræðunni.

Eitt dæmi sem hægt er að nefna því til staðfestingar er að við erum nú að fjalla um þetta mál hér í 2. umr. og mun þingheimur væntanlega samþykkja þetta sem lög frá Alþingi á morgun. Fyrir þó nokkru vorum við búin að samþykkja hluta af því sem hér er verið að leggja til, í fjáraukalögum fyrir árið 2005 er nú þegar búið að samþykkja 2,5 milljarða sem gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi. Þetta er auðvitað alveg á skjön við það sem ætti að vera vegna þess að fjáraukalög eru auðvitað m.a. til þess að bregðast við settum lögum en ekki lögum sem á eftir að setja. Þetta eru því miður dæmi um þau vinnubrögð sem hér eru viðhöfð og eru ekki til fyrirmyndar. Þar að auki blasir það við að þessir 2,5 milljarðar, sem samþykktir voru í fjáraukalögum, verða ekki allir nýttir á þessu ári og ættu þess vegna heima í fjárlögum næsta árs. Þetta er hluti af þeirri umræðu sem kemur bæði fjárlögum og fjáraukalögum við en er dæmi um þau vinnubrögð sem við höfum því miður þurft að búa við of lengi.

Frú forseti. Það væri hægt að fara hér yfir einstaka þætti sem hér er verið að leggja til að framkvæmdir verði fyrir þá peninga sem fengust fyrir Landssímann. Hér eru inni þættir sem maður hefði talið eðlilegra að væru teknir fyrir í eðlilegri röð, þ.e. ýmist í samgönguáætlun eða fjárlögum hvers árs, upphæðirnar eru ekki hærri en það. En það er mjög áberandi að einn mjög stór verkþáttur sem bíður okkar í samgöngumálum kemst ekki á blað. Þar á ég að sjálfsögðu við jarðgangagerð. Það er miður að þegar slíkir fjármunir koma inn og verið er að gera áætlanir til lengri tíma að þá komist slík verk ekki á blað. Það er miður en á móti má segja að það sem hér er verið að setja niður skapar svigrúm á öðrum sviðum sem á þá að auka líkur á að til slíks komi.

Frú forseti. Það er annað sem kemur upp í hugann þegar maður hefur hlýtt á þá umræðu sem hér hefur farið fram og sérstaklega varðandi ræðu hæstv. forsætisráðherra. Hann tók af allan vafa um það að engin skilyrði væru sett með þeim fjármunum sem ætlaðir eru til Sundabrautar. Það verður að segjast eins og er að þetta vekur upp hugmyndir um verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Við ættum ekki að þurfa að ræða hér innansveitarvegagerð, þróun byggðar í einstökum sveitarfélögum. Það á að vera á hendi sveitarfélaganna sjálfra að ákveða slíka hluti. Þetta kallar enn einu sinni á það að menn fari nú einhvern tíma í þá vinnu fyrir alvöru að endurskipuleggja þá verkaskiptingu. Ég tala nú ekki um þegar maður heyrir síðan einstaka hv. þingmenn koma hér og ræða um það að sveitarstjórnir hafi ekki staðið sig nægjanlega vel og svo heyrist á öðrum vettvangi að hugsanlega sé það ríkisvaldið sem hafi ekki staðið sig nægjanlega vel — það er sem sagt stöðugt verið að reyna að ná einhverju samkomulagi á milli tveggja stjórnvalda um framkvæmdir innan sveitarfélaganna. Þetta er auðvitað ekki við hæfi og það þarf sem allra fyrst að stokka hlutina upp þannig að sveitarfélögin sjálf taki slíkar ákvarðanir. Þá losnum við við að hlýða á slíkar umræður og sú umræða sem hér hefur farið fram finnst mér að stórum hluta miklu frekar eiga heima í húsi hér í nágrenninu, þ.e. Ráðhúsi Reykjavíkur.