132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

327. mál
[18:26]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Fram hefur komið í umræðu um málið að þetta sé vitleysan endalausa svo gripið sé til orða nokkurra stjórnarsinna sem lýstu þessu frumvarpi þannig að þetta sé hálfgerð langavitleysa. Einnig hefur komið fram að verið sé að flækja flókið mál meira og þetta sé arfavitlaus skattheimta og stjórnarþingmenn hafa sagt að fresta ætti frumvarpinu og geyma þetta fram yfir jól og reyna að gera eitthvað betur úr því.

Ég er út af fyrir sig alveg sammála þessu. Við þingmenn Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem sátum í efnahags- og viðskiptanefnd flytjum breytingartillögu sem ég er viss um að ákveðnir stjórnarsinnar sem ég sé að eru ekki í salnum núna vildu mjög gjarnan greiða atkvæði með. Þess vegna vil ég, frú forseti, óska eftir því að draga þessar breytingartillögur okkar til 3. umr. vegna þess að við viljum gefa þeim stjórnarsinnum sem hyggjast og hafa talað þannig að þeir muni styðja þetta kost á að greiða atkvæði um það á morgun.