132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Örorka og velferð.

[10:46]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Þessi skýrsla olli mér miklum vonbrigðum. Hér er kostað til miklum tíma og miklum peningum og fenginn til þess kunnur fræðimaður, gamall baráttufélagi minn úr launþegahreyfingunni, og niðurstaðan er svo full af rangfærslum þar sem verið er að bera saman ósambærilega hluti, sleppt úr heilu bótaflokkunum og nýjustu upplýsingar ekki notaðar að það gerir skýrsluna nánast ónothæfa í þessari umræðu.

Ég vona að við séum öll sammála um að við viljum bæta hag öryrkja, jafnvel þótt við deilum um það hvaða aðferð sé best til að gera það þannig að sá hagur batni á viðvarandi hátt. Það sem ég á afskaplega bágt með að átta mig á er hvaða tilgangi það þjóni í umræðunni að sverta stöðu Íslands í þessum efnum gagnvart nágrannalöndum okkar. (Gripið fram í: … ekki sammála.) Hvaða tilgangi þjónar það að rangfæra tölur þegar borið er saman við það hvernig staðan er annars staðar á Norðurlöndunum?

Í nýrri skýrslu þar sem borin eru saman almannatryggingakerfin á Norðurlöndunum kemur fram að hvað varðar öryrkja erum við Íslendingar vel fyrir ofan meðallag. Við erum rétt fyrir neðan Norðmenn en Svíar og Finnar eru fyrir neðan okkur. Hvaða tilgangi þjónar það þá að segja að við fylgjum ekki hinu norræna módeli?

Í sömu skýrslu kemur fram að ráðstöfunartekjur eldri borgara á Íslandi séu hæstar á Norðurlöndunum. Þetta er miðað við árið 2002 en einmitt á árinu 2002 gerði ríkið samkomulag við eldri borgara og nýlega er búið að fara yfir hvernig það samkomulag hafi verið efnt. Alls staðar þar sem hægt er að setja mælikvarða á samkomulagið hefur það verið efnt að fullu. Hvaða tilgangi þjónar það svo í umræðunni að sverta stöðu okkar og sverta það sem okkur hefur þó tekist að gera í þessum efnum?