132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Örorka og velferð.

[10:48]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er ekki nýtt að við veltum fyrir okkur stöðu öryrkja og aldraðra í þjóðfélaginu sem myndast hefur hér á síðustu 10 árum undir forustu Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Það hefur verið viðvarandi regla að tekjur öryrkja eru skertar með sérstöku skerðingarákvæði og síðan hefur verið sýnt fram á hvernig viðbótin í skattkerfinu tekur nánast allan ábata öryrkja í burtu ef þeir afla sér tekna eða ef þeir eiga lífeyristekjur.

Þetta fyrirkomulag sem ég hef svo margoft bent á úr þessum ræðustól er mjög ósanngjarnt bæði gagnvart öryrkjum og eldri borgurum. Það vantar átak í að hækka persónuafslátt. Það þarf að koma persónuafslættinum upp undir 38–40 þús. kr. þannig að skattleysismörkin nálgist 110 þús. kr. Það er algjört skilyrði að mínu mati. Ég hef margsagt það í þessum ræðustól að ríkisstjórnin hefur valið það að fjölga skattgreiðendum í láglaunahópum, fjölga skattgreiðendum meðal öryrkja, eldri borgara, atvinnulausra og lágtekjufólks.

Svo kemur hæstv. fjármálaráðherra og segir að skýrsla sú sem Stefán Ólafsson vann og sýnir það viðvarandi ástand sem er til staðar valdi miklum vonbrigðum og að hún sé ósönn. Hæstv. ráðherra. Væri ekki nær að óska öryrkjum gleðilegra jóla með einhverju öðru en slíkum boðskap? Heldurðu að öryrkjar viti ekki hvað þeir fá útborgað? Heldurðu að þeir viti ekki fyrir hvaða skerðingu þeir verða? Hvers konar fíflaskapur er þetta, hæstv. ráðherra?