132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Örorka og velferð.

[10:55]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Aðalatriði þessa máls er þetta: Öryrkjum á Íslandi eru búin óviðunandi kjör. Vinstri hreyfingin – grænt framboð telur það vera forgangsatriði að búa svo um almannatryggingar að þær tryggi öllum öryrkjum og öldruðum mannsæmandi kjör. Við höfum sett fram tillögur um hvernig megi ná því markmiði.

Síðan er hitt, samanburðurinn við önnur lönd og fortíðin. Auðvitað skiptir máli að það sé rannsakað, og Stefán Ólafsson, fræðimaður og prófessor við Háskóla Íslands, á mikið lof skilið fyrir rannsóknir sínar á íslenska velferðarkerfinu og þeim samanburði sem hann hefur gert á okkar kerfi og þeim kerfum sem aðrar þjóðir búa við. Í ljós hefur komið að við búum öryrkjum lakari lífskjör en nágrannaþjóðir okkar gera. Stjórnvöld hafa borið brigður á ýmsa þætti í rannsóknum Stefáns, það gera öryrkjar hins vegar ekki og sýna fram á það með gögnum. Það er mjög mikilvægt að við sem komum nálægt lagasmíð af þessu tagi, sem þessum málum tengjast, kynnum okkur málin sjálf til hlítar. Allt of oft hefur leti og sinnuleysi stjórnmálamanna til að kafa sjálfir ofan í málin valdið því að umræða af þessu tagi hefur gufað upp. Við fengum ágætt dæmi áðan frá hæstv. forsætisráðherra sem sagðist hafa spurst fyrir um málið og að á grundvelli fyrirspurnar og þess sem honum er sagt fullyrðir hann hér síðan út í loftið að þetta sé allt saman bull og vitleysa. Hann verður sjálfur að kafa ofan í þessi mál og færa rök fyrir máli sínu.

Varðandi framtíðina vil ég líka segja þetta: Stigið var ákveðið framfaraspor vorið 2003, eða fyrirheit gefin um slíkt, um að búa þeim öryrkjum sem ekki njóta samtryggingar lífeyrissjóðanna bærilegri kjör. Það var undirritað á flóðlýstum blaðamannafundi í aðdraganda kosninganna 2003. Það var svívirðilegt (Forseti hringir.) að þetta samkomulag, þessi samningur við Öryrkjabandalag Íslands, skuli hafa verið svikinn. Ég auglýsi eftir umræðu um framhaldið á því máli.