132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Örorka og velferð.

[10:57]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Lengi framan af síðustu öld stóð Ísland mun veikar að vígi efnahagslega en önnur Norðurlönd en á síðustu áratugum hefur orðið mikil breyting á, Ísland er með nákvæmlega sömu tekjur og Norðurlöndin, meira að segja meiri tekjur en sum þeirra. Á sama tíma hefur íslenska samhjálpin, velferðarkerfið, vaxið meira hér en í nokkru öðru landi. Og alveg sama hvað menn segja, hin norræna tölfræði sem er hin fullkomnasta og besta í heiminum segir þessa sögu, íslenskt velferðarkerfi stenst fullkomlega samanburð við það besta sem er í heiminum. Þannig viljum við hafa það. Þannig hefur samhjálp alltaf verið aðferð norrænna þjóða, skandinavískra þjóða, til að ná hámarksárangri.

Ef menn vilja standa hér í þrætubók um hvað sé rétt og hvað rangt í þessu er mönnum það fullkomlega heimilt en staðreyndir málsins geta menn ekki flúið. Þær liggja alveg fyrir. Hvergi í heiminum hafa lífskjörin batnað meira og betur á síðustu 10 árum, þ.e. ráðstöfunartekjurnar, tekjurnar eftir skatt, leiðrétt með vísitölu, hvergi. Öryrkjar og eldri borgarar og hverjir sem er hafa allir notið þess. Það eru ósannindi að orðið hafi gliðnun þar á milli. Það stenst ekki. Menn verða að horfa til þess að verið er að vinna að þessu af einlægni núna, eins og gert hefur verið í marga áratugi og engar pólitískar deilur um það. Það er því leiðinlegt þegar menn eru hér með köpuryrði út af þessum hlutum, sérstaklega í garð hæstv. heilbrigðisráðherra sem allir vita að hefur lagt sig fram af einlægni í þessu starfi, af einlægni og hreinu hjarta. Það er ömurlegt þegar menn nota svoleiðis aðferðir.