132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Örorka og velferð.

[11:02]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin þó að þau væru rýr í roðinu vegna þess að hann svaraði því í engu hvort hann væri tilbúinn að beita sér fyrir slíkri áætlun í samvinnu við samtök aldraðra og öryrkja.

Ráðherrann sagðist harma að það þyrfti að þrátta um prósentur og staðreyndir, við ættum ekki að þurfa að þrátta um slíkt, hér væru viðkvæm mál á ferðinni og við ættum að geta verið sammála um ákveðin grundvallaratriði varðandi prósentur og staðreyndir.

Þetta er rétt, þetta eru viðkvæm mál og við eigum ekki að þurfa að þrátta um þessa hluti stöðugt. Sá veldur miklu sem upphafinu veldur. Öryrkjar fengu hvergi að koma nærri skýrslugerðinni um fjölgun öryrkja sem unnin var af hálfu ríkisstjórnarinnar. Þeir fengu hvergi að koma þar nærri þegar sú skýrsla var samin. Ef menn vilja hafa sátt við þessa hópa, vilja efna til góðs samstarfs við þessa hópa, verða þeir að hleypa hópunum að borðinu. Þeir verða að ræða við þá á jafnréttisgrundvelli alveg eins og aðra hópa í samfélaginu. Það verður að sýna þeim þá virðingu. Auðvitað væri næst að menn settust niður yfir slíka skýrslugerð og kæmu sér bara saman um forsendurnar í henni. En því er ekki að heilsa hjá hæstv. ríkisstjórn.

Í mínum huga snýst þetta mál í grundvallaratriðum um það hvert við ætlum að stefna með íslensku velferðarkerfi. Mér finnst sérkennilegt hvernig menn tala hér. Það er talað um að heilbrigðisráðherra sé góður maður — vissulega er heilbrigðisráðherra hinn vænsti maður en þetta snýst bara ekkert um það. Við erum ekki að tala um einhverja góðgerðarstarfsemi, við erum að tala um lífskjaratryggingu fyrir öryrkja og aldraða og það er það sem hið norræna, eða skandinavíska, velferðarkerfi snýst um. Það er lífskjaratrygging, ekki góðgerðir, ekki góðvilji einn og sér. Hann dugir voðalega skammt.

Við eigum ekki að dæma fólk til lágra launa, skammta því lök lífskjör þó svo að það hafi orðið fyrir örorku einhvern tímann á lífsleiðinni. Þannig er þankagangurinn hjá stjórnvöldum, (Forseti hringir.) það á að skammta þeim lök lífskjör en ekki lífskjaratryggingu.