132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[11:59]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir þessar upplýsingar. Verið er að skoða hvort þær rúmist innan fjárheimilda stofnunarinnar nú og þeirra fjárheimilda sem henni er ætlað á næsta ári. Ráðherrann segir að ef það er ekki þá verði að bregðast við því og þá er spurningin: Verður strax brugðist við því? Það verði ekki látið lulla áfram allt næsta ár, fram að næstu fjárlagagerð, heldur verði strax brugðist við. Það er ákaflega mikilvægt að Vinnumálastofnun hafi í höndum þau tæki, tól og mannafla sem þarf til að hún geti fylgt eftir ákvæðum laganna vegna þess að verkefni hennar verður töluvert mikið samkvæmt ákvæðum 10. gr.

Ef til vill er ástæða til þess að spyrja, og ég vona að ráðherrann svari því í seinna andsvari, hvort hann muni verða við þeirri ósk sem ég beindi til hans varðandi það að koma á framfæri athugasemdum ríkisskattstjóra við fjármálaráðherra og hvort hann bregðist við varðandi vinnuverndarþáttinn sem forstjóri Vinnueftirlitsins gerði athugasemdir við og augljóslega þarf að skoða miklu nánar en gert hefur verið.