132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[12:13]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef í sjálfu sér fyllstu samúð með því viðhorfi sem kom fram hjá hv. þingmanni. Frá því að ég settist hér inn á þing 1991 hefur alltaf verið í gangi viðleitni til að stýra löggjafanum. Það er bara partur af því vinnuumhverfi sem við störfum í. Þetta sáu menn fyrir sem upphaflega settu þann ramma sem Alþingi starfar eftir. Þetta sáu menn fyrir þegar þeir settu stjórnarskrána og þess vegna er sérhverjum þingmanni fyrir lagt að hann á eingöngu að starfa eftir sannfæringu sinni. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar að þótt kontóraveldi úti í bæ séu að reyna, og stundum með of góðum árangri, að hafa áhrif á mál þá eigum við einfaldlega að gera það sem við getum til að hrista slíkt af okkur og starfa hér eftir okkar sannfæringu. Nú er það svo að það frumvarp sem hér er verið að ræða hefur í för með sér framfarir. Ég er ekki alveg sammála hv. þingmanni þegar hann segir að það hefði ekki komið hér fram nema vegna þessa samnings. Hér hafa þingmenn stjórnarandstöðunnar í tvö ár verið að reyna að reka hæstv. félagsmálaráðherra og ríkisstjórnina til réttar í málinu. Það var stjórnarandstaðan, m.a. flokkur hv. þingmanns, sem tók þátt í þeirri umræðu frá upphafi og benti á þennan vanda og hvernig þessi mál væru að þróast. Við sögðum réttilega fyrir um þær ógöngur sem þessi grein atvinnulífsins hefur ratað í. Ég tel að það hafi verið óhjákvæmilegt að setja lög af þessu tagi á þessum vetri, einfaldlega til þess að koma skikk á þá sjóræningjamennsku, sem ég hef kallað, sem ríkir í þessari grein. Mér finnst það með vissum hætti ákveðin uppgjöf hjá hv. þingmanni að láta þetta ráða afstöðu sinni. Við eigum að fara eftir því sem okkur finnst, ekki eftir kontóraveldum úti í bæ, en við eigum ekki að hafna þeim framfaraskrefum sem stigin eru, (Forseti hringir.) m.a. vegna þrýstings frá okkur sem höfum verið að vinna í þessum málum.