132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[12:22]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þó að ég hafi notað orðið leikrit áðan var ég ekki endilega að segja að umfjöllun nefndarinnar hefði á einhvern hátt verið óvönduð. Það er hægt að skrifa góð leikrit og það er líka hægt að skrifa vond leikrit. Orðið leikrit var kannski rangt, það hefði kannski frekar átt að lýsa þessu sem leshring. Við fórum vandlega yfir frumvarpið, það er alveg rétt, við fengum fjölmarga gesti á fundi til okkar og að mörgu leyti fóru fram mjög áhugaverðar umræður á fundum nefndarinnar. Ég var þeirrar trúar alveg þar til á laugardaginn, ætli það hafi ekki verið fjórði fundurinn í þessari röð fimm funda, að meiri hluti nefndarinnar mundi sameinast um að gera breytingartillögur á frumvarpinu því að ég held að við höfum öll gert okkur grein fyrir því að frumvarpið er langt í frá fullkomið. Forseti ASÍ lýsti því meira að segja yfir að það væri alls ekki fullkomið. ASÍ hefði til að mynda gjarnan viljað sjá frumvarpið öðruvísi en ef ég man orð hans rétt sagði hann eitthvað á þá leið að þetta væri ekki fullkominn heimur og menn yrðu að leita málamiðlana og þetta hefði verið lendingin í samningaviðræðunum þegar samningurinn var gerður, því að eins og ég sagði áðan er frumvarpið ekkert annað en samningur sem komið er með á Alþingi. Þannig er það einfaldlega.

Umfjöllun nefndarinnar var mjög vönduð og til fyrirmyndar, ég vil fá að taka það fram. En eins og ég hef áður sagt veldur það mér miklum vonbrigðum að þrátt fyrir allt skuli meiri hluti nefndarinnar láta flatreka í málinu, ef svo má segja, og það eina sem kemur inn er ákvæðið um að frumvarpið verði endurskoðað innan tveggja ára, sem er að vísu mjög góður varnagli og kannski sá varnagli sem bjargar að einhverjum hluta andliti nefndarinnar, þó ég verði að segja líka að mér finnst samt sem áður að hann fari fyrir frekar lítið, (Forseti hringir.) heiður nefndarinnar.