132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[12:57]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson gerði orðaskipti mín og hv. þm. Péturs H. Blöndals að umræðuefni og sagði að ég virti þingmanninn ekki svars, hefði ekki svarað honum. Þetta er ekki rétt. Ég svaraði hv. þm. Pétri H. Blöndal en ég skal játa að þótt hann hafi séð ástæðu til að endurtaka spurningu sína sá ég ekki ástæðu til að endurtaka svar mitt. Ég sagði í umræðunni að mér fyndist það vera fagnaðarefni að stjórnarandstöðunni á Alþingi og verkalýðshreyfingunni skuli hafa heppnast að knýja ríkisstjórnina til að hreyfa sig loksins í þessu brýna máli.

Varðandi málflutning hv. þingmanns um sveigjanleikann þá segir hann að sveigjanleikinn sé nauðsynlegur til að tryggja hér hátt atvinnustig. En hvar eru mörk sveigjunnar? Hvar eru mörk þessa sveigjanleika? Hljóta þau ekki að vera þeir kjarasamningar sem eru gerðir í landinu? Frumvarpið og öll viðleitni okkar í verkalýðshreyfingunni og í stjórnarandstöðu er að tryggja að íslenskir kjarasamningar haldi. Út á það gengur málið. Út á það eitt gengur málið.