132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[13:01]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég á svolítið erfitt með að átta mig á hvers vegna fulltrúar Sjálfstæðisflokksins vilja draga þessa umræðu niður á lægra plan eins og þeir hafa gert. Varðandi óeðlilegt inngrip í kjarasamninga o.s.frv. þá hef ég hef svarað því. Ekki er um neitt slíkt að ræða. Við höfum verið fullkomlega samstiga innan samtaka launafólks við að knýja á um réttarbót í þessum efnum. Ég hef ítrekað að ég fagna því að stjórnarandstöðunni á Alþingi og verkalýðshreyfingunni, þar með Alþýðusambandi Íslands, skuli hafa tekist að knýja ríkisstjórnina til að hreyfa sig í þessu máli.

Ég hef fylgt eftir lagabreytingum sem hafa legið fyrir Alþingi í langan tíma, í frumvarpi frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, og áherslum víðs vegar að úr verkalýðshreyfingunni sem eru fullkomlega í takt við það sem verkalýðshreyfingin á Íslandi hefur gjörvöll barist fyrir.

Varðandi tilkostnaðinn við frumvarpið, hvort það sé einfalt eða flókið, þá get ég ekki ímyndað mér einfaldara form við að ná þeim markmiðum sem hv. þingmaður lýsir yfir að hann vilji í heiðri hafa, þ.e. að íslenskir kjarasamningar gildi. Þetta er spurning um innsæi í kjör manna, að menn hafi aðgang að upplýsingum og að kveðið sé á um það í lögum að þeir samningar skuli vera virkir og hægt að hafa eftirlit með því. Ég held að ekki verði deilt um að það hefur ekki tekist. Þau lög sem við búum við hafa ekki skapað möguleika á slíkri eftirfylgni. Reynslan knýr okkur til breytinga.