132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[13:03]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Alltaf þegar ákveðnir þingmenn verða rökþrota þá fara þeir að tala um að málið sé komið niður á eitthvert plan. Það er svolítið sérstakt. Við hv. þm. Ögmundur Jónasson ráðum alveg á hvaða plani umræðan er. Ef hann hefur fast land undir fótum þá færir hann rök fyrir máli sínu. Það er ekkert flóknara. (ÖJ: Ég hef gert það.) Virðulegi forseti. Hv. þingmaður Ögmundur Jónasson gerði það ekki. Hv. þingmaður sagði að þetta væri ekki óeðlilegt inngrip. Hann kom ekki með rök. Ég skrifaði eftir hv. þingmanni að ekki væri um óeðlilegt inngrip að ræða.

Virðulegi forseti. Alla jafna koma þingmenn Vinstri grænna í ræðustól og tala um að mikilvægt sé að eiga samstarf við aðila vinnumarkaðarins. Nú koma aðilar vinnumarkaðarins og segja: Svona viljum við hafa þetta og verði ekki unnið með þeim hætti mun hið háa Alþingi setja kjarasamninga í uppnám. Þá kemur hv. þm. Ögmundur Jónasson og er augljóslega alveg til í að setja kjarasamninga í uppnám. Hann segir: Við skulum breyta þessu öllu saman. Hv. þm. Pétur H. Blöndal spurði þá hv. þm. Ögmund Jónasson hvort þetta sé eðlilegt og í samræmi við það sem áður hefur verið sagt. En enn hefur ekki borist svar við því. (ÖJ: Jú, jú. Þetta er rosalega málefnaleg umræða.)

Virðulegur forseti. Það er nefnilega svo magnað að sumir þingmenn eru þannig að þegar vitnað er beint í þá, þeirra eigin orð, þá er það ekki málefnalegt. Þannig eru bara sumir hv. þingmenn. En eftir stendur að það er ekki búið að svara spurningu hv. þm. Péturs H. Blöndals.