132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[13:07]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ágætt að fram komi frá jafnaðarmannaflokki Íslands að þótt samkomulag sé gert við verkalýðshreyfinguna og vitnað til þess í nefndaráliti þá skipti það ekki neinu máli. Það er bara ágætt að það komi skýrt fram. Mér þykir gott að fá fram það viðhorf. Þá liggur fyrir hvert viðhorf Samfylkingarinnar er til samninga og þess þegar samkomulag er gert við aðila vinnumarkaðarins.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson fór af hógværð og lítillæti yfir það sem menn vissu og skildu. Að sjálfsögðu veit hv. þm. Össur Skarphéðinsson meira en flest okkar hér inni. Við þurfum að lifa með því. En ég vil hvetja hann til að lesa nefndarálitið og fara yfir samkomulagið sem gert var 15. nóvember og við hverja það var gert. Það er ágætt að fram hafi komið að hann telur það engu máli skipta, ekki nokkru. Ég held að það sé frétt fyrir verkalýðshreyfinguna, að heyra þetta frá forustumönnum Samfylkingarinnar. Þar kveður við nýjan tón líkt og oft hefur gerst áður en það er í sjálfu sér mjög ánægjulegt.

Ég vildi gjarnan fara yfir vinnumarkaðsmál í Evrópusambandinu þótt ég nái því kannski ekki í þessu stutta andsvari. En ég væri til í að gera það hvar og hvenær sem er fyrir hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Ég fagna því að hann tilgreindi þau fáu ríki Evrópusambandsins sem hafa fylgt svipaðri stefnu og íslensk stjórnvöld í skattamálum og ýmsum málum öðrum. En hins vegar liggur það fyrir að ég hef áhyggjur af því að með lagasetningu sem þessari höfum við áhrif á sveigjanleika íslensks vinnumarkaðar.