132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[13:41]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson er ágætismaður og ég ber virðingu fyrir honum. En ég verð að segja eins og er: Þegar hv. þingmaður segir að hér séu ribbaldaleigur, og tengir það hagsmunagæslu ríkisstjórnarinnar, þykir mér hann ganga of langt. Það er allt í lagi að vera ósammála og láta hörð orð falla en þetta finnst mér þessum ágæta þingmanni ekki sæmandi. Ég vil vekja athygli á öðru sem hefur komið fram í umræðunni. Ég bað hv. þm. Össur Skarphéðinsson að lesa nefndarálit félagsmálanefndar. Hann hefur ekki gert það þannig að ég ætla að gera það fyrir hann, þ.e. ákveðinn kafla hér, sem hljóðar svo — þá er vísað í starfshóp sem í átti sæti fulltrúi frá Alþýðusambandi Íslands, Samtökum atvinnulífs og félagsmálaráðuneyti, með leyfi forseta:

„Samstaða náðist um að sett yrðu sérlög um starfsmannaleigur og gerðu fulltrúar aðila samkomulag um þau atriði sem fram koma í því frumvarpi sem hér hefur verið lagt fram. Samkomulagið náðist 15. nóvember sl. og var það ein af forsendum þess að ekki kom til uppsagnar kjarasamninga á almennum vinnumarkaði.“

Ein af forsendum þess. Ekkert flóknara en það. (Gripið fram í.) Það liggur alveg hreint og klárt fyrir að hv. þingmaður segir að þetta skipti engu máli, það þurfi ekkert að standa við þetta samkomulag. Annað, virðulegi forseti, hér spyr einn af forustumönnum jafnaðarmannaflokks Íslands mig út í hvað ég eigi við að það verði ósveigjanleiki á vinnumarkaði ef við komum af stað opinberu kjarastríði. Ég hvet hv. þingmann til að tala við aðila síns eigin flokks, fulltrúa launþegahreyfingar t.d., sem hafa farið yfir hve miklu betra það sé að þessi samskipti séu á milli verkalýðsfélaga og atvinnurekenda í staðinn fyrir að hafa opinbert eftirlit. (Forseti hringir.) Mér finnst það eigi ekki að vera mitt hlutverk að útskýra þetta fyrir hv. þingmanni.